Home / Fréttir / Lavrov segir stjórn Úkraínu undirbúa „vopnaða ögrun“

Lavrov segir stjórn Úkraínu undirbúa „vopnaða ögrun“

 

Rússneskar orrustuþotur.
Rússneskar orrustuþotur.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði mánudaginn 17. desember að stjórn Úkraínu legði á ráðin um „vopnaða ögrun“ á næstu vikum. Samskipti nágrannaríkjanna hafa versnað jafnt og þétt frá því að rússneski flotinn hertók þrjú eftirlitsskip Úkraínu á Svartahafi

Sama dag og Lavrov lét þessi orð falla sagði rússneska varnarmálaráðuneytið að það mundi „senda aftur“ 10 hervélar til Krímskaga. Um er að ræða orrustuþotur af gerðunum Sukhoi Su-27 og Su-30 og er ætlunin að þær verði á þessu hernumda svæði Rússa „til frambúðar“. Talið er líklegt að þeim verði flogið þangað laugardaginn 22. desember.

Í frétt rússnesku fréttastofunnar TASS er haft eftir Lavrov að Úkraínumenn undirbúi „vopnaða ögrun gegn Rússum á landamærunum við Krím síðustu tíu dagana í desember“.

Lavrov sagði að rússnesk stjórnvöld mundu ekki leyfa Úkraínustjórn að hrinda þessum áformum í framkvæmd. „Þeir munu sjá eftir því,“ sagði utanríkisráðherrann. Hann sagði jafnframt að Rússar mundu „ekki fara í stríð við Úkraínu“.

„Við eigum ekki í átökum við stjórn Úkraínu,“ sagði Lavrov. „Það eru íbúar Úkraínu í Donbass-héraði sem berjast við úkraínsku stjórnina sem ber yfirbragð nazisma og ný-nazisma.“

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …