Home / Fréttir / Lavrov segir Bandaríkjamenn og Breta í stríði við Rússa

Lavrov segir Bandaríkjamenn og Breta í stríði við Rússa

Sergei Lavrov

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, laugardaginn 23. september, að Bandaríkjamenn og Bretar væru í stríði við Rússa. „Þið getið kallað þetta hvað sem þið viljið,“ sagði Lavrov. „En þeir eru beinlínis í stríði við okkur. Við köllum þetta fjölþátta stríð en það breytir ekki raunveruleikanum.“

Með þessum orðum svaraði Lavrov spurningunni: „Á hvaða stigi verða þetta í raun bein átök við Bandaríkin en ekki einfaldlega átök með Úkraínu sem staðgengil?“

Fyrr þennan sama laugardag hafði verið greint frá því að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði samþykkt að láta Úkraínumönnum í té langdræg vígvallar-flugskeytakerfi landhersins (e. long-range army tactical missile systems, ATACMS) sem ná til skotmarka í allt að 300 km fjarlægð.

Mánuðum saman hafa Úkraínumenn óskað eftir að fá ATACMS-kerfið. Bandaríkjastjórn hefur hins vegar hafnað óskum þeirra að nokkru vegna óróleika yfir því að Rússar mundu saka hana um að stigmagna stríðsátökin. Sagt er að Úkraínustjórn hafi lofað að miða flaugunum ekki á rússneskt landsvæði.

Stjórnmálaskýrandi breska vikuritsins The Spectator segir að þótt sá sem spurði Lavrov hafi aðeins nefnt Bandaríkinu hafi utanríkisráðherrann ekki hikað við að skella skuldinni einnig á aðrar þjóðir, sérstaklega Breta. Þegar Lavrov lýsti Vesturlöndum sem virkum „í ófriði [við Rússa] með Úkraínumenn sem fóður“ sakaði hann Bandaríkjamenn og Breta um „stríðsaðgerðir“ með sífellt tíðari afhendingu vopna til Úkraínumanna, þjálfun hermanna í Bretlandi og Evrópu og með því að senda könnunarflugvélar til að skilgreina skotmörk á Krím. Þegar annar blaðamaður spurði hvort nýtt vígbúnaðarkapphlaup og kalt stríð væri á næsta leiti neitaði Lavrov að svara afdráttarlaust.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …