Home / Fréttir / Lavrov: Samþykkið tillögur okkar eða herinn gerir út um málið

Lavrov: Samþykkið tillögur okkar eða herinn gerir út um málið

Rússneskir nýliðar bíða eftir flutninhi á vígvöllinn.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði jóladag, 25. desember, að hann útilokaði ekki viðræður um Úkraínu. Stjórnvöld í Kyív höfnuðu því að ræða við Rússa á sama tíma og þeir láta sprengjum rigna yfir borgir í Úkraínu og þess er krafist af Moskvumönnum að viðurkennd verði ráð þeirra yfir um fimmtungi lands Úkraínu.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, fylgdi orðum Pútins eftir annan jóladag, 26. desember, og sagði að annaðhvort samþykktu Úkraínumenn kröfur Rússa eða herinn gerði út um málið. Lavrov sakaði jafnframt ráðamenn í Kyív og á Vesturlöndum um að vilja eyðileggja Rússland.

Rússneska TASS-fréttastofan hafði eftir Lavrov síðla dags 26. desember:

„Óvinurinn þekkir tillögur okkar vel… Staðan er einföld: Ykkur er fyrir bestu að samþykkja þær. Annars gerir rússneski herinn út um málið.“

Markmið Pútins með stríðinu við Úkraínumenn er að af-nazistavæða þá og afvopna þar sem þeir ógni Rússlandi. Í Kyív og á Vesturlöndum er litið á innrásina sem tilraun til landsyfirráða í anda heimsvaldastefnu.

„Það er ekki neitt leyndarmál fyrir nokkurn mann að markmið Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í NATO er að sigra Rússa á vígvellinum, það er liður í ráðabruggi um að veikja umtalsvert eða jafnvel eyðileggja land okkar,“ sagði Lavrov við TASS.

Hann áréttaði að ekki væri unnt að viðhalda eðlilegu sambandi milli ráðamanna í Moskvu og Washington, skellti hann skuldinni á Joe Biden Bandaríkjaforseta.

Undanfarin sólarhring hefur her Úkraínu hrundið árásum Rússa í tveimur byggðarlögum á Luhansk svæðinu í austurhluta Úkraínu og sex á nálægu Donetsk svæði að sögn herráðs Úkraínu að morgni þriðjudags 27. desember.

Í daglegu ávarpi sínu að kvöldi 26. desember sagði Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti að ástandið við víglínuna í Donbas væri „erfitt og sársaukamikið“.

Forsetinn sagi að vegna árása Rússa á grunnvirki í Úkraínu væru um níu milljónir manna án rafmagns, það er um fjórðungur íbúa Úkraínu.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …