Home / Fréttir / Lavrov kvartar undan broti á siðareglum

Lavrov kvartar undan broti á siðareglum

Vladimir Pútin og Emmanuel Macron á frægum fundi í Moskvu 3. mars 2022.

Fjórum dögum áður innrás Rússa var gerð í Úkraínu ræddi Emmanuel Macron Frakklandsforseti við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í síma. Símtalið tók níu mínútur og var sagt frá því í heimildarmynd á frönsku sjónvarpsstöðinni France 2 um tilraunir Macrons til að draga úr hættu á átökum milli Rússa og Úkraínumanna.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagði þetta þriðjudaginn 5. júlí á blaðamannafundi með utanríkisráðherra Víetnams.  Lýsti hann hneykslun sinni á því að France 2 hefði birt efni úr samtali forsetanna tveggja.

„Diplómatískar siðareglur gera ekki ráð fyrir að einhliða sé lekið slíkum upptökum,“ sagði rússneski utanríkisráðherrann.

Lavrov telur að Rússar þurfi ekki að bera kinnroða fyrir efni samtals forsetanna. „Við höldum ávallt þannig á málum í viðræðum sem þessum að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir þær. Við segjum ávallt það sem við hugsum, við erum til þess búnir að svara fyrir orð okkar og að skýra afstöðu okkar,“ sagði utanríkisráðherrann.

Eins og lesendur útdráttar úr símtalinu sem birtist hér á vardberg.is geta séð lét Pútin orð falla á þann veg að Macron hélt að hann ætlaði að kalla her sinn heim frá æfingum við landamæri Úkraínu. Í raun var allt annað á döfinni hjá Pútin eins og skýrðist á dögunum fjórum sem liðu frá símtalinu þar til fyrirmæli um innrásina voru gefin 24. febrúar 2022.

Strax eftir að heimildarmyndin var sýnd sagði Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, að frönsk stjórnvöld hefðu rofið trúnað í viðræðum við ráðamenn í Moskvu. Hún fordæmdi að mynda- og upptökumenn hefðu verið við hlið Frakklandsforseta þegar hann átti trúnaðarsamtal við forseta Rússlands.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …