Home / Fréttir / Lavrov kallar yfir sig reiði Ísraela með Hitler-ummælum

Lavrov kallar yfir sig reiði Ísraela með Hitler-ummælum

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa.

Utanríkisráðherra Ísraels segir „ófyrirgefanlegt“ að Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, hafi látið orð falla um „gyðingablóð“ í æðum nazistaleiðtogans Adolfs Hitlers.

Lavrov greip til þessara orða þegar hann reyndi að réttlæta þá lýsingu Rússa að „nazistar“ réðu í Úkraínu þrátt fyrir að forseti landsins sé gyðingur.

Ísraelska utanríkisráðuneytið hefur kallað á rússneska sendiherrann fyrir sig til að óska „skýringa“ og krefjast afsökunar.

Nazistar undir harðstjórn Hitlers drápu sex milljónir manna í gyðingaofsóknum í síðari heimsstyrjöldinni.

Lavrov sat fyrir svörum í ítölskum sjónvarpsþætti sunnudaginn 1. maí nokkrum dögum eftir að gyðingaofsóknanna var minnst á sérstökum minningardegi, helgum degi í Ísrael.

Þegar Lavrov var spurður hvernig Rússar gætu fullyrt að þeir berðust í Úkraínu til að „af-nazistavæða“ landið þegar Volodymyr Zelenskíj forseti væri sjálfur gyðingur, svaraði hann:

„Nú, hvað með að Zelenskíj sé gyðingur? Sú staðreynd eyðir ekki nazisma í Úkraínu. Ég held að það hafi einnig verið gyðingablóð í Hitler – sumir mestu and-semítistarnir eru gyðingar.“

Yair Lapid, utanríkisráðherra Ísraels, brást mjög illa við ummælum Lavrovs og sakaði hann um and-semítisma. Dani Dayan, forstöðumaður Yad Vashem Holocaust minningasafnsins í Ísrael, sagði á Twitter:

„Flest af því sem hann segir er fráleitt, hugarórar, hættulegir og ber að fordæma. Lavrov snýr gyðingaofsóknunum á hvolf, gerir fórnarlömbin að glæpamönnum, hann heldur fram algjörlega tilbúnum fullyrðingum um að Hitler væri af gyðingaættum.“

Í frétt BBC segir að áratugum saman hafi verið á kreiki ósannaðar fullyrðingar um að ókunnur föðurafi Hitlers hafi verið gyðingur, lögfræðingur Hitlers, Hans Frank, ýtti undir þessar fullyrðingar.

Frank sagði í endurminningum sínum, sem komu út 1953, að Hitler hefði falið honum að rannsaka orðróm um að forfeður hans væru gyðingar. Frank sagðist hafa fundið sannanir fyrir því að afi Hitlers hafi verið gyðingur. Segir BBC að þessi skoðun sé viðurkennd af samsæris-sagnfræðingum en almennt hafni sagnfræðingar henni.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …