Home / Fréttir / Trump segir að Comey sé „montrass“ – Lavrov í Washington í skugga brottrekstrar FBI-forstjórans

Trump segir að Comey sé „montrass“ – Lavrov í Washington í skugga brottrekstrar FBI-forstjórans

 

Rússneska Tass-fréttastofan sendi ein myndir af fundi Donalds Trumps með Seigeij Lavrov og rússneka sendiherranum í Hvíta húsinu.
Rússneska Tass-fréttastofan sendi ein myndir af fundi Donalds Trumps með Seigeij Lavrov og rússneka sendiherranum í Hvíta húsinu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti rak James Comey, forstjóra FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, fyrirvaralaust þriðjudaginn 9. maí. Gagnrýnendur forsetans segja að hann hafi gripið til þessa óvenjulega ráðs vegna áhuga Comeys á að rannsaka grunsemdir um tengsl Rússa við áhrifamenn í kosningabaráttu Trumps við Hillary Clinton í fyrra. Forsetinn hafi talið meiru máli skipta að FBI rannsakaði ásakanir hans sjálfs um að Barack Obama, þáv. Bandaríkjaforseti, hafi látið hlera sig í kosningabaráttunni. Auk þess verði að upplýsa hvernig trúnaðargögnum Trump í óhag hafi verið lekið til fjölmiðla.

Embættismenn forsetans segja að óánægja hans með Comey hafi magnast undanfarna mánuði. Í viðtali við NBC-sjónvarpsstöðina fimmtudaginn 11. maí sagði Trump að hann hefði rekið Comey af því að honum hefði mistekist við stjórn FBI og væri athyglissjúkur.

„Sjáðu, hann er montrass, hann er haldinn stórmennsku,“ sagði forsetinn. „Það hefur ríkt uppnám í FBI. Þú veist það, ég veit það. Allir vita það. Sjáðu hvernig FBI var fyrir ári, það var allt í uppnámi þar, fyrir innan við ári. Stofnunin hefur ekki náð sér síðan.“

Andrew McCabe, starfandi forstjóri FBI, sagði fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, fimmtudaginn 11. maí að af hálfu starfsmanna Trumps forseta hefði ekki verið „gert neitt“ til að hindra rannsókn starfsmanna FBI á hugsanlegri samhæfingu Rússa og manna úr stuðningsmannaliði Trumps í forsetakosningunum. Hann hét því einnig að upplýsa nefndina ef menn forsetans reyndu að skipta sér af rannsókninni. Hann sagðist ekki mundu láta Trump eða aðra í Hvíta húsinu vita um gang rannsóknarinnar, til þessa hefði enginn úr þeirri átt spurt um hana.

Daginn eftir að Trump rak Comey tók hann á móti Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Sergeij I. Kisljak, sendiherra Rússa í Washington, í skrifstofu sinni í Hvíta húsinu. Sendiherrann hefur verið áberandi í fréttum í Bandaríkjunum undanfarið því að samtal hans við Michael Flynn, fyrrv. þjóðaröryggisráðgjafa Trumps, um að létta viðskiptaþvingunum af Rússum, og þögn Flynns um það urðu til að hann tók pokann sinn og hvarf úr Hvíta húsinu.

The New York Times (NYT) segir að einu myndirnar frá fundi forsetans með Rússunum hafi komið frá rússnesku fréttastofunni Tass. Þar sjáist brosandi Trump heilsa gestum sínum. Engir fjölmiðlamenn fengu að spyrja spurninga í Hvíta húsinu þótt þeir hefðu nokkrum mínutum fyrr verið boðnir stuttlega inn í forsetaskrifstofuna til að taka myndir af Trump á fundi með Henry A. Kissinger, fyrrv. utanríkisráðherra.

Þá segir NYT að af hálfu bandaríska utanríkisráðuneytisins hafi ekki verið sagt neitt um fund sem Rex Tillerson utanríkisráðherra og Lavrov héldu í ráðuneytinu áður en Lavrov hitti Trump. Segir blaðið að alkunnugt sé hve Tillerson sé lítið fyrir að ræða við fjölmiðlamenn. Vegna þess hafi Lavrov átt „frítt spil“ gagnvart fjölmiðlum og hann kunni að nýta sér það. Minnt er á að Lavrov hafi á ferli sínum sem utanríkisráðherra hitt fjóra ólíka bandaríska utanríkisráðherra.

Frá því að Tillerson tók á móti Lavrov á sjöundu hæðinni í utanríkisráðuneytinu höfðu fjölmiðlamenn mestan áhuga á að vita hvort brottvísun Comeys myndi „varpa skugga“ á fundi með Lavrov eins og einn blaðamaður orðaði það í spurningu sem hann kallaði til ráðherranna.

Lavrov sneri sér að fjölmiðlamönnunum og sagði: „Var hann rekinn? Þú ert að grínast! Þú ert að grínast!.“ Tillerson tók í handlegg Lavrovs og þeir gengu inn til Tillersons.

Þótt Lavrov sýndi brosandi þessa kaldhæðni segja fréttaskýrendur að hann hefði heldur kosið, í fyrstu heimsókn sinni til Washington síðan 2013, að fá spurningar um friðaráform Rússa í Sýrlandi.

Rússneskum ráðamönnum sé ekkert um það gefið að svona mikil athygli beinist að baktjaldamakki þeirra í netheimum vegna bandarísku forsetakosninganna. Brottrekstur Comeys verði til þess eins að málið fái á sig nýjan og jafnvel enn alvarlegri svip.

Þá er bent á að ekki verði það til að ýta Rússum úr sviðsljósinu vegna Comey-málsins að Trump ákvað að taka á móti Lavrov og rússneska sendiherranum að morgni miðvikudagsins 10. maí þegar allir fjölmiðlar, álitsgjafar, embættismenn og stjórnmálamenn voru á suðupunkti vegna brottvísunar Comeys.

Lavrov sagðist hafa rætt við Trump um „alvöru mál“ þegar hann var spurður hvort brottreksturs Comeys hefði borið á góma á fundinum í forsetaskrifstofunni.

Trump sagði að fundur hans með Lavrov hefði verið „mjög, mjög góður“ og að bæði Rússar og Bandaríkjamenn vildu binda enda á „drápin – hroðalegu, hroðalegu drápin í Sýrlandi eins fljótt og verða má og allir stefna að því marki“.

Lavrov sagði að viðræðurnar við Bandaríkjastjórn einkenndust ekki núna af „hugmyndafræðilegu hlutdrægninni sem einkenndi Obama-stjórnina“. Trump og Tillerson væru að sínu mati menn sem vildu að hlutirnir gerðust. Þeir vildu samkomulag.

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …