Home / Fréttir / Lavrov biðlar til fjögurra Afríkuríkja

Lavrov biðlar til fjögurra Afríkuríkja

Sergei Lavrov utanríkisráðherra kvartar undan að fá ekki myndir af sér með ráðamönnum í Afríku.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er í Kongó mánudaginn 25. júlí á ferð sinni um Afríkuríki til að fegra hlut lands síns. Hann heimsækir einnig Egyptaland, Úganda og Eþíópíu.

Utanríkisráðherrann kom sunnudaginn 24. júlí til Oyo í norðurhluta Kongó um 400 km fyrir norðan höfuðborgina Brazzaville og valdasetur forseta Kongó sem er Denis Sassou Nguesso. Eftir fund með forsetanum heldur Lavrov til Úganda og þaðan til Eþíópíu.

Rússneska utanríkisráðuneytið sakar Bandaríkjastjórn um að beita sér gegn því að forystumenn Afríkulandanna láti taka myndir af sér með Lavrov. Vilji Bandaríkjamenn með því „hindra að Rússar noti myndirnar til að sanna að þeir séu ekki einangraðir“. Með tilkynningu sinni um þetta birti rússneska ráðuneytið nokkrar myndir á samfélagsmiðlum af brosandi Lavrov þegar Jean-Claude Gakosso, utanríkisráðherra Kongó, fagnar honum innilega á Ollombo alþjóðaflugvellinum í Oyo að kvöldi sunndags 24. júlí.

Áður en heimsóknin hófst birtist viðtal við Lavrov þar sem hann sagði að Rússar hefðu „lengi átt góð samskipti við Afríku eftir daga Sovétríkjanna“.

Hann bar lof á hlut Rússa við að afmá nýlendustjórn í Afríku og sagði þá hafa veitt þjóðfrelsishreyfingum stuðning, síðan stutt stofnun sjálfstæðra ríkja og loks lagt þeim lið efnahagslega.

Afríkuferð Lavrovs hófst í höfuðborg Egyptalands, Kairó, sunnudaginn 24. júlí þar sem hann hitti Abdel Fattah el-Sissi forseta og Sameh Shukry utanríkisráðherra. Lavrov ræddi einnig við Ahmed Aboul Gheit, framkvæmdastjóra Arababandalagsins. Hann ávarpaði fund fulltrúa bandalagsins.

Á sameiginlegum blaðamannafundi með Shukry sagðist Lavrov hafa rætt „hernaðaraðgerð“ Rússa í Úkraínu við egypska embættismenn sem hefðu hvatt til þess að beitt yrði „pólitískum og diplómatískum“ aðferðum til að binda enda á átökin.

Lavrov kenndi Úkraínumönnum um að slitnað hefði upp úr fyrri friðarviðræðum:

„Við setjum enga fyrirvara við að taka upp viðræður á breiðari grundvelli, þetta ræðst þó ekki af okkur,“ sagði hann. „Forseti Úkraínu og óteljandi ráðgjafar hans segja jafnan að ekki verði rætt um neitt fyrr en Úkraínumenn sigri Rússa á vígvellinum.“

Í ræðunni með fulltrúum Arababandalagsins lagði Lavrov sig fram um að sannfæra áheyrendur sína um réttmæti þeirra skoðana Kremlverja að Vestrið hefði neytt Rússa til að ráðast inn í Úkraínu og sakaði Vestrið um að hafa að engu áhyggjur Rússa af stækkun NATO til austurs.

Heimild: Euronews

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …