Home / Fréttir / Lavrov á Íslandi – segir Rússa eiga allt Norður-Íshafið

Lavrov á Íslandi – segir Rússa eiga allt Norður-Íshafið

 

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússland, kom til Íslands í dag, miðvikudag 19. maí, til að sitja fund Norðurskautsráðsins og taka við formennsku í því til tveggja ára af Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra.

Á blaðamannafundi í Moskvu í vikunni sagði Lavrov í tilefni af fundi Norðurskautsráðsins: „Öllum varð það fullkomlega ljóst fyrir löngu að þetta er okkar svæði, okkar land. Við berum ábyrgð á því að tryggja öryggi norðurstrandar okkar. Leyfið mér að árétta enn einu sinni – þetta er okkar land og okkar haf.“

Lavrov sagði einnig:

„Þegar NATO reynir síðan að réttlæta sókn sína inn á norðurslóðir (e. Arctic) er staðan líklega nokkuð önnur og þar vakna spurningar fyrir nágranna okkar eins og Norðmenn sem reyna að rökstyðja nauðsyn þess að NATO láti að sér kveða á norðurslóðum.“

Hér er vitnað í frétt AFP-fréttastofunnar um blaðamannafund Lavrovs en í fréttinni er minnt á að í febrúar 2021 hafi Bandaríkjamenn sent langdrægar sprengjuvélar til þjálfunar í Noregi, hafi það verið liður í viðleitni vestrænna ríkja til að efla hernaðarlega viðveru sína á svæðinu.

Árið 2018 sendi bandaríski flotinn í fyrsta sinn flugmóðurskip norður í Noregshaf síðan á níunda áratugnum.

AFP minnir á að undanfarin ár hafi Vladimir Pútin Rússlandsforseti sett norðurslóðir í forgang í strategísku tilliti og gefið fyrirmæli um fjárfestingu í hernaðarmannvirkjum þar og nýtingu auðlinda í jörðu.

Með ísbráðnun í Norður-Íshafi voni Rússar að þeir geti notað Norðursiglingaleiðina til að flytja út olíu og gas á erlenda markaði.

Í kvöld hittast Sergeij Lavrov og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í fyrsta sinn frá því að Joe Biden varð forseti Bandaríkjanna í janúar 2021. Spenna er milli stjórnvalda í Moskvu og Washington og beinast því augu margra að því sem gerist á fundi þeirra í Reykjavík að kvöldi 19. maí.

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …