
Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur veitt launmorðingja sem eitraði fyrir Sergei Skripal í Salisbury heiðursmerki sem ofursta í rússneskri njósnastofnun. Breska lögreglan kallaði þennan mann Ruslan Boshirov, rétt nafn hans er Anatolíj Vladimirovitsj Tsjepiga.
Hann er 39 ára og hefur tekið þátt í stríðunum í Tsjetjeníu og Úkraínu. Rússlandsforseti lýsti hann hetju Rússneska sambandsríkisins árið 2014 við leynilega athöfn.
Rannsóknarblaðamenn hjá Bellingcat hafa komist að þessu í samvinnu við The Telegraph. Þar með hefur verið upplýst að Pútín laug þegar hann sagði að þeir sem reyndu að gera út af við Skripal hefðu verið saklausir „borgarar“.
Tsjepiga fór um England sem Boshirov, félagi hans var Alexander Petrov. Þeir fullyrða að þeir hafi verið í skemmtiferð til Salisbury til að skoða dómkirkjuna þar. Þeir hefðu ekki átt neinn hlut að því að planta novitsjok-eitri við heimili Skripals.
Ekki er enn vitað um rétt nafn Alexanders Petrovs. Í The Telegraph er fullyrt miðvikudaginn 26. september að hann hafi ferðast undir réttu eiginnafni og látið sér nægja að breyta ættarnafninu. Blaðið telur að hryðjuverkalögreglan viti rétt nafn hans.
Haft er eftir fyrrv. háttsettum rússneskum herforingja að ofurstatign Tsjepiga benti sterklega til þess að „fyrirmæli um verknaðinn komi frá æðstu stöðum“.
Theresa May, forsætisráðherra Breta, sakaði launmorðingjana um að vera félaga í GRU, leyniþjónustu rússnesku herstjórnarinnar. Nú er ljóst að Tsjepiga ofursti hefur barist með úrvals-sérsveitinni Spetsnaz undir stjórn GRU í 17 ár og starfað með leynd í að minnsta kosti níu ár.
Oftar en 20 sinnum hefur hann verið sæmdur heiðursmerki sem hetja Rússneska sambandsríkisins. Rússlandsforseti afhendir orðuna sjálfur og aðeins fáeinir hana ár hvert.