Home / Fréttir / Launmorðingi drepur fyrrverandi rússneskan þingmann í miðborg Kænugarðs

Launmorðingi drepur fyrrverandi rússneskan þingmann í miðborg Kænugarðs

Denis Voronenkov
Denis Voronenkov

Denis Voronenkov, fyrrv. þingmaður í Rússlandi sem leitaði hælis í Úkraínu í október 2016, var myrtur í skotárás í miðborg Kænugarðs fimmtudaginn 23. mars. Rússnesk yfirvöld höfðu sakað hann um „fjársvik“. Petro Porosjenko, forset Úkraínu, sakar ráðamenn í Moskvu um að hafa staðið að „hryðjuverki“.

Andrej Grisjtsjenko, lögreglustjóri í Kænugarði, sagði að skotárás hefði verið gerð við fimm stjörnu Premier Palace hótelið, einn hefði fallið og tveir hefðu særst og verið fluttir á sjúkrhúsinu.

Atvikið var tekið upp á öryggismyndavélum og segir lögreglan að árásármaðurinn, sem lífvörður Voronenkovs særði í skotbardaga, hafi verið vopnaður „gamalli sovéskri skammbyssu“. Árásarmaðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést. Ekkert var gefið upp um hann.

Voronenkov (45 ára) var félagi í rússneska kommúnistaflokknum sem styður Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Hann svaraði nýlega spurningum saksóknara í Úkraínu vegna rannsóknar máls gegn Viktor Janúkovitsj, fyrrv. forseta Úkraínu, sem hraktist úr embætti vegna mótmæla almennings í febrúar 2014. Voronenkov flúði frá Rússlandi með eiginkonu sinni, Mariu Maksakovu, þingmanni flokks Pútíns og óperusöngkonu. Í Moskvu var hann lýstur „svikari“ eftir flóttann.

Rússneska rannsóknarnefndin hefur haft til meðferðar fjársvikamál gegn Denis Voronenkov sem rekja má aftur til ársins 2010. Sjóðurinn til baráttu gegn spillingu sem lýtur stjórn Alexejs Navalníjs, andstæðings Rússlandsforseta, hefur einnig verið til rannsóknar vegna ásakana um spillingu. Þegar Voronenkov var yfirheyrður af ríkissaksóknara Úkarínu í lok janúar 2017 sagði hann að Rússar hefðu skipulagt „beitingu herafla síns“ innan Úkraínu frá því í desember 2013, það er tveimur mánuðum áður en Viktor Janúkovitsj, skjólstæðingi Pútíns, var steypt af stóli. Þá sagði hann einnig að eftir innlimun Krímskaga í mars 2014 hefði ástandið í Rússlandi „umturnast vegna þjóðrembu“ sem minnti á það sem gerðist í „Þýskalandi nazismans“.

Dmitríj Peskov, talsmaður Pútíns, sagði „fráleitt“ af Petro Porosjenko að segja morðið framið að undirlagi ráðamanna í Moskvu. Hér væri nær að tala um vanmátt lögreglunnar í Úkraínu.

Frants Klintsevtsj, varformaður ráðs varnar- og öryggisnefndar Rússlands, sagði við ríkissjónvarpsstöðina Rossija-24 að líta mætti á morðið á Voronenkov sem „ögrun“ af hálfu leyniþjónustu Úkraínu.

Þrátt fyrir harða gagnrýni Voronenkovs í garð Pútíns og stjórnar hans naut hann ekki vinsælda meðal allra þjóðernissinna í Úkraínu. Sumir þeirra efuðust um hollustu hans og gagnrýndu stjórnina í Kænugarði fyrir hve hratt hún lét hann hafa úkraínskt vegabréf.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …