Home / Fréttir / Las Vegas: Blóðugasta skotárás í sögu Bandaríkjanna

Las Vegas: Blóðugasta skotárás í sögu Bandaríkjanna

Stephen Paddock.
Stephen Paddock.

Meira en 58 manns féllu og að minnsta kosti 515 að auki hlutu sár þegar byssumaður lét skothríð dynja á gestum á Route 91 uppskeru-tónlistarhátíðinni í Las Vegas að kvöldi sunnudags 1. október. Tölur um þá sem týndu lífi sýna að ekki hefur áður orðið meira mannfall í skotárás af þessu tagi í Bandaríkjunum. Í fyrra féllu 49 í árás í næturklúbbi í Orlando í Flórída. Lögreglan telur að tala látinna í Las Vegas hækki enn.

Að minnsta kosti 20 rifflar fundust í hótelherbergi byssumannsins auk mikils magns af byssukúlum. Þá var tveimur AR-15 árásarifflum stillt upp við hótelgluggann er rúður höfðu verið brotnar með barefli, hugsanlega var stór riffill notaður eins og sleggja.

Talið er að um 22.000 manns hafi verið á tónlistarhátíðinni þegar skothríðin hófst. Daesh-hryðjuverkasamtökin (Ríki íslams) sendu frá sér yfirlýsingu síðdegis mánudaginn 2. október og sögðu árásarmanninn einn af liðsmönnum sínum. Lögreglan dregur sannleiksgildi yfirlýsingarinnar í efa. Hún hafi ekki getað fundið nein tengsl við alþjóðleg hryðjuverkasamtök.

Byssumaðurinn var Stephen Paddock 64 ára á eftirlaunum. Lögreglumenn fundueins og áður segir  mikið magn vopna og skotfæra í hótelherbergi hans á 32. hæð í Mandalay Bay Casino and Resort, þar sem lögregla kom að honum látnum. Hann er talinn hafa verið einn að verki.

Fjölmiðlar segja að Stephen Paddock hafi árum saman lifað rólegu lífi í litlum bæ utan við Las Vegas. Hann fór oft til Las Vegas til að spila fjárhættuspil og á tónleika segja ættingjar hans. Af opinberum gögnum má ráða að hann hafði réttindi sem flugmaður og átti tvær flugvélar. Hann hafði auk þess veiðileyfi í Alaska.

Hann virðist hafa búið í nokkur ár í Mesquite, Texas. Síðan flutti hann til bæjar með sama nafni í Nevada og hefur búið þar síðan 2013.

Fjölskylda hans segir ekkert úr fortíð hans gefa vísbendingu um að hann breyttist í ofbeldismann. Hann hafi alls ekki verið undarlegur í háttum. Allir sem standi honum næst séu undrandi og felmtri slegnir. Í þeirra huga hafi verið óhugsandi að eitthvað slíkt gerðist.

Að morgni mánudags 2. október leitaði lögregla í húsi Paddocks í Mesquite, Nevada, um 130 km norðaustur af Las Vegas. Lögreglan þar sagðist ekki hafa neina vitneskju um hann. Nafn hans væri ekki að finna í neinum skrám lögreglunnar. Sama sagði lögreglan í Las Vegas.

Upptökur frá skotárásinni benda til þess að Paddock hafi notað vélbyssu. Hann skráði sig inn á hótelið fimmtudaginn 27. september. Við hlið hans voru meira en 10 rifflar.

Risafyrirtækið Lockheed Martin sendi mánudaginn 2. október frá sér tilkynningu um að Paddock hefði unnið hjá fyrirtækinu í þrjú ár á níunda áratugnum, 1985 til 1988.

Heimild: The Washington Post

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …