Home / Fréttir / Lars Løkke vill dýpka norrænt samstarf og efla á alþjóðavettvangi

Lars Løkke vill dýpka norrænt samstarf og efla á alþjóðavettvangi

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, (t.v) og Tobias Billström, utanríkisráðherra Svía, í Stokkhólkmi 16. janúar 2023.

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Dana, segir að auka verði norrænt samstarf og færa það á nýtt stig vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Ráðherrann sem tók við embætti sínu skömmu fyrir jól var í opinberri heimsókn til Svíþjóðar. Blaðamaður Berlingske var í föruneyti ráðherrans og ræddi við hann í Stokkhólmi.

„Við eigum að standa saman í baráttu fyrir samfélagsgerðum okkar, norrænum gildum okkar. Við höfum fjölmargar ástæður til að vinna mun nánar saman. Það snýr að hermálum en snýst ekki síður og jafnmikið um að standa vörð um og þróa þjóðfélög okkar,“ segir utanríkisráðherrann við Peter Suppli Benson blaðamann Berlingske um norræn málefni.

„Líti maður á Norðurlöndin sem eina efnahagsheild náum við örugglega inn í G20 hópinn kannski erum við eitt af G10 ríkjunum. Á mörgum sviðum eru gildi okkar og samfélagsgerð svo samstæð að þegar við sameinum kraftana, diplómatískt afl okkar, getum við haft veruleg hnattræn áhrif, ef við viljum,“ segir danski utanríkisráðherrann.

Minnt er á að Svíar og Finnar eru umsækjendur um aðild að NATO og Danir hafa horfið frá fyrirvara sínum um varnarmál innan ESB. Það opni alveg nýjar samstarfsleiðir á norrænum vettvangi.

Samhliða þessu hafi Eystrasaltssvæðið orðið enn mikilvægara fyrir öryggi Norður-Evrópu. Vegna þessara breytinga megi þess vænta að enn meiri kröfur verði gerðar til Dana, Svía og Finna í öryggismálum, meðal annars í nánu samstarfi við Eystrasaltsþjóðirnar, að mati utanríkisráðherrans.

„Að við eigum allir land að Eystrasalti, svæði sem er orðið að miðlægum geópólitískum lykilpunkti krefst þess að svið störfum saman. Hernaðarlega en einnig þegar tekist er á við annars konar hættuástand,“ segir Lars Løkke Rasmussen.

Blaðamaðurinn minnir á að fyrr á árinu hafi Sauli Niinistö Finnlandsforseti nefnt að norrænu ríkin ættu að mynda eins konar norræna deild og starfa náið saman í NATO. Lars Løkke er þeirrar skoðunar að enn nánara norrænt samstarf megi þó ekki verða á kostnað breiðara samstarfs á vettvangi NATO.

„Ég hef enga trú á norrænni blokk í NATO. Danir vilja enga svæðaskiptingu í NATO-samstarfinu. Hins vegar geta menn starfað saman sem styður og styrkir NATO-aðildina. Ég sé að norrænu ríkin og Eystrasaltsríkin hafa náð árangri í Evrópu – ekki með því að mynda eigin deild heldur með því að vera hópur ríkja með sömu grunnafstöðu, þau hafa fært rök fyrir sömu markmiðum og ef til vill ráðið fyrirfram ráðum sínum um einhver atriði. Leiðin felst í auknu norrænu samstarfi, einnig í öryggismálum,“ segir Lars Løkke Rasmussen.

Blaðamaðurinn segir að greina megi dálitla öfund hjá danska utanríkisráðherranum þegar hann líti á hernaðarmátt Svía og Finna.

Finnar ráði yfir einum mesta varnarmætti nokkurrar þjóðar í Evrópu og í stríði geti þeir kallað út varalið svo að með skömmum fyrirvara hafi þeir meira en 700.000 hermenn undir vopnum.

Svíar skáru herafla sinn mikið niður eftir að kalda stríðinu lauk. Þeir ráða á hinn bóginn yfir hátækni herafla, fullkomnum orrustuflugvélum og kafbátum. Varnarmáttur þjóðanna tveggja er langtum meiri en Dana.

„Við mér blasa tvö ríki, Svíþjóð og Finnland, sem ráða yfir mjög öflugum herafla og getu. Að þessu verðum við að huga í Danmörku nú þegar við erum í þeirri aðstöðu að verða að endurreisa herafla okkar eftir að hafa slakað á og notið ávaxta friðarins. Í Svíþjóð og Finnlandi hafa þeir komið lagi á sína hluti. Danir hafa á hinn bóginn mikla alþjóðlega reynslu og af samstarfinu í NATO,“ segir Lars Løkke Rasmussen.

Hann segist hafa rætt við sænska utanríkisráðherrann, Tobias Billström, um samstarf þjóðanna um framvarnir á Eystrasaltssvæðinu en framkvæmdin sé á hendi varnarmálaráðherranna.

Hann segist einnig hafa tekið eftir því að tónninn hjá sænskum stjórnvöldum hafi breyst eftir að borgaraflokkarnir settust í ríkisstjórn í Stokkhólmi. Fyrir stjórnarskiptin hafi ekki mátt minnast á ákveðna hluti í sænsku samhengi. Nú líti Svíar á hinn bóginn opnum huga til Danmerkur til að fræðast um hvernig þar hafi verið tekið á glæpum, glæpagengjum og aðlögun útlendinga. Í Svíþjóð sé nú tekið á ýmsum málum líkt og gert hafi verið í Danmörku.

Lars Løkke viðurkennir einnig að eftir áratuga aðhald í útlendingamálum séu því takmörk sett hve Danir geti enn hert á þeim skrúfum. Í því efni geti þeir vissulega ýmislegt lært af Svíum.

Í lok viðtalsins segist Lars Løkke Rasmussen bjartsýnn þegar hann skoði tækifærin til að skapa enn dýpri tengsl Dana og annarra norrænna þjóða.

„Menn gleyma stundum hve samþættingin er mikil og hefur náð langt á milli Norðurlandaþjóðanna. Við afnámum vegabréfaskyldu milli okkar löngu áður en nokkrum í Evrópu datt slíkt í hug. Við samþættum héruðin í Suður-Svíþjóð og Danmörku og töldum það sjálfsagt, kannski án þess að hugsa mikið um alla kostina sem því fylgja. Þegar COVID birtist kom í ljós að gripið var til ólíkra aðgerða í Svíþjóð og Danmörku. Allt í einu rann upp fyrir öllum hvað samvinnan hafði gefið okkur. Það eigum við að hafa sem leiðarljós á sama tíma og við endurreisum samband Dana og Svía sem við högum litið á sem allt of sjálfsagðan hlut,“ segir Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Dana, í lok viðtalsins við

Peter Suppli Benson hjá Berlingske.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …