
Baráttan í Danmörku vegna þingkosninganna 5. júní einkennist nú af því að flokkarnir kynna stefnumál sín. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre-flokksins (mið-hægri), efndi mánudaginn 20. maí til blaðamannafundar í Kruså við þýsku landamærin og boðaði að hann vildi halda áfram landamæraeftirlitinu sem tekið var upp tímabundið en hefur hvað eftir annað verið framlengt.
„Við neyðumst til að horfast í augu við að landamæraeftirlitið hverfur ekki. Við verðum að viðurkenna að við erum neydd til að krefjast meiri pólitísks eignarréttar við landamærin,“ sagði Lars Løkke Rasmussen.
Stefna flokks hans er að breyta þurfi Schengen-samstarfinu. Danska ríkisstjórnin eigi ekki að þurfa að fá heimild frá framkvæmdastjórn ESB í hvert sinn sem hún vill framlengja landamæraeftirlitið.
Forsætisráðherrann telur aukið eftirlit nauðsynlegt til að hafa auga með farandfólki, til að bregðast við hættu af hryðjuverkamönnum og skipulagðri glæpastarfsemi sem teygi sig yfir landamæri.
Markmiðið sé að finna sveigjanlega lausn sem auðveldi löghlýðnum borgurum að fara yfir landamæri en flæki það fyrir glæpamenn.
Þá vill Venstre einnig gera yfirvöldum kleift að fylgjast með þegar glæpamenn yfirgefa landið.
Vegna viðvarandi landamæraeftirlits vill forsætisráðherrann að keypt séu tæki og tækni sem tryggi lamdamæraeftirlit á „snjallan hátt“. Vill að varið sé 50 m. dkr. (um milljarði ísl. kr.) til að þróa landamæraeftirlit með fleiri eftirlitsferðum, meira samstarfi yfirvalda og betri tækni.