Home / Fréttir / Lars Løkke Rasmussen segir Grænland of stórt fyrir „fullt sjálfstæði“

Lars Løkke Rasmussen segir Grænland of stórt fyrir „fullt sjálfstæði“

Lars Løkke Rasmussen
Lars Løkke Rasmussen

Lars Løkke Rasmussen, fyrrv. forsætisráðherra Danmerkur, sagði sunnudaginn 28. júní í samtali við danska blaðið Politiken að Grænlendingar gætu gleymt öllum hugmyndum um sjálfstæði ætli Bandaríkjastjórn að beita áhrifum sínum í landinu.

Forsætisráðherrann fyrrverandi telur að Grænlendingar yrðu háðir Bandaríkjamönnum í stað þess að verða sjálfstæðir. Danir eigi að láta sig málefni Grænlands meiru varða. Hann segir í Politiken:

„Taki Grænlendingar ákvörðun um formlegt sjálfstæði mun koma í ljós að þeir öðlast minna fullveldi en þeir hafa núna. Það liggur í augum uppi – það nægir að skoða hnött.

Grænland er hluti meginlands Norður-Ameríku. Grænland skiptir svo miklu máli að enginn leyfir þar fullt sjálfstæði. No way!“

Minnt er á að á dögunum hafi Bandaríkjastjórn opnað ræðisskrifstofu í Nuuk á Grænlandi og auk þess veitt 83 m. dsk. fjárhagsstuðning til ýmissa verkefna á Grænlandi. Lars Løkke Rasmussen er þeirrar skoðunar að fyrst eftir að skapast hafi efnahagslegur stöðugleiki á Grænlandi verði í alvöru unnið að sjálfstæði landsins.

Með þetta í huga verði Danir að svara vingjarnlegri ýtni Bandaríkjamanna. Meiri „hreinskilni“ verði að setja svip á umræður um sjálfstæði Grænlendinga segir Lars Løkke Rasmussen.

Hann telur að Grænlendingar og Færeyingar verði sjálfir að skilgreina hvernig þeir vilji að lokum öðlast sjálfstæði en danskir stjórnmálamenn eigi ekki að forðast þátttöku í umræðum um ýmis grænlensk málefni, til dæmis á félagslega sviðinu.

Þá er hann þeirrar skoðunar að mynda eigi öruggan vettvang þar sem unnt sé að miðla upplýsingum milli Dana, Grænlendinga og Færeyinga. Þar gætu þeir síðarnefndu öðlast meiri áhrif á utanríkis- og varnarstefnu danska konungsríkisins.

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …