Home / Fréttir / Lars Løkke Rasmussen segir af sér flokksformennsku

Lars Løkke Rasmussen segir af sér flokksformennsku

 

Lars Løkke Rasmussen og Kristian Jensen - þeir hafa báðir boðað afsögn sína sem formaður og varaformaður.
Lars Løkke Rasmussen og Kristian Jensen – þeir hafa báðir boðað afsögn sína sem formaður og varaformaður.

Lars Løkke Rasmussen, fyrrv. forsætisráðherra Danmerkur, boðaði að morgni laugardags 31. ágúst afsögn sína sem formaður Venstre, mið-hægri flokksins, sem hann hefur veitt forystu í 10 ár. Hann notaði Twitter og sagði:

„Mikilvægt að gæta sjálfsvirðingar sinnar. Get ekki verið formaður í flokki þar sem mér sem formanni er ekki gefið tækifæri til að ræða og sannreyna pólitísku stefnuna sem ég hef lagt fyrir þann landsfund þar sem ég er kjörin. Þakka mörg góð ár.“

Tilkynninguna birti Løkke að loknum löngum fundi í 24 manna framkvæmdastjórn flokksins þar sem meðal annars var rætt hvernig dagskrá landsfundar flokksins skyldi hagað. Løkke vildi að í upphafi yrði rætt um stefnu flokksins sem lyki með stjórnmálaályktun. Við svo búið yrði gengið til kosninga um menn í trúnaðarstöður.

Í baklandi flokksins var víðtækur stuðningur um að fundurinn ætti aðeins að snúast um kjör á forystu flokksins. Løkke varð undir í framkvæmdastjórninni og ákvað að segja af sér.

Venstre gekk vel í kosningum til ESB-þingsins og danska þingsins í byrjun sumars en tapaði stjórnarforystunni og nú situr minnihlutastjórn jafnaðarmanna við völd í Danmörku. Strax að kosningum loknum hófust átök innan forystusveitar Venstre.

Átökin voru í æðstu stjórn flokksins því að Kristian Jensen, varaformaður flokksins, snerist opinberlega gegn Løkke. Að morgni laugardags 31. ágúst tilkynnti Jensen að hann yrði ekki í endurkjöri.

Kristian Jensen skýrði einnig frá því að um síðustu helgi, að morgni sunnudags 25. ágúst hefði hann lagt til við Lars Løkke Rasmussen að þeir drægju sig báðir í hlé til að koma til móts við raddir í baklandinu um að nýir menn yrðu fengnir til að leiða flokkinn. Løkke hafnaði tillögunni.

Kristian Jensen endurtók tillögu sína á fundi framkvæmdastjórnar flokksins að kvöldi föstudags 30. ágúst en Løkke hafnaði henni í annað sinn. Þá boðaði Jensen að hann myndi bjóða sig fram gegn Løkke í formannskjöri á landsfundinum.

„Þetta hefur leitt til þess að Lars Løkke Rasmussen tók ákvörðun um að segja af sér. Og ég stend við það sem ég hef sagt frá fyrsta degi,“ segir Kristian Jensen.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …