Home / Fréttir / Lapplandsháskóli riftir samningi við prófessor Heininen vegna Moskvuferðar

Lapplandsháskóli riftir samningi við prófessor Heininen vegna Moskvuferðar

Lassi Heininen, prófessor emeritus, við Lapplandsháskóla.

Lapplandsháskóli í Rovaniemi hefur sagt upp starfslokasamningi sínum við Lassi Heininen, prófessor emeritus, eftir að vitneskja barst um að hann hefði sótt ráðstefnu í Moskvu um norðurslóðir í Austurlöndum fjær, Far East, Arctic Conference 2024.

Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar Barents Observer, segir frá þessu laugardaginn 11. maí. Hann vitnar í það sem Merja Laitinen, deildarstjóri félagsvísindadeildar Lapplandsháskóla, sagði við finnska blaðið Ilta-Sanomat:

„Við höfum gefið skýr fyrirmæli um að ekki skuli stunduð slík samvinna eða farið í slíkar ferðir. Hann hefur ekki verið í sambandi við deildina um að fara [til Rússlands] eða hvaða erindi hann átti þangað.“

Ráðstefnan sem Heininen sótti var haldinn í fyrstu viku mars og segir Nilsen að hún sé mesti norðurslóðaviðburður Rússa á þessu ári. Starfslokasamningnum var sagt upp þriðjudaginnm 8. maí.

Skipuleggjendur Moskvu-ráðstefnunnar birtu viðtal við Heininen á YouTube þar sem hann sagði „… að samkomur af þessu tagi [væru] mjög mikilvægar til að bæta þarfa samvinnu eins og þessa og fyrir þá afstöðu að vinna [ætti] hlutina saman í stað þess að hver [ynni] fyrir sig“

Að Far East, Arctic – 2024 Conference stóðu lykilaðilar og stjórnarstofnanir sem vinna að norðurslóðastefnu Rússa. Formaður skipulagsnefndarinnar er Elena Zlenko, fulltrúi í sambandsráði sjálfstjórnarhéraðsins Jamalo-Nenets. Zlenko hefur verið sett undir alþjóðlegar refsiaðgerðir vegna stuðnings hennar við brot Rússa á landsyfirráðarétti Úkraínu.

Upplýsingadeild Kremlarfréttastofunnar TASS sá um dreifingu áróðurs vegna ráðstefnunnar.

Thomas Nilsen segir að allir háskólar í Finnlandi hafi, eins og háskólar í Noregi, hætt allri samvinnu við rússneska háskóla og opinberar rannsóknarstofnanir eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022.

Lassi Heininen segir skoðun sína á málinu í Ilta-Sanomat og tekur fram að hann hafi farið í einkaerindum til Moskvu. Á hinn bóginn er bent á að í fyrrgreindu myndskeiði á YouTube hafi hann í upphafi kynnt sig á þennan hátt:

„Ég heiti Lassi Heininen, ég er prófessor emeritus við Lapplandsháskóla, Finnlandi.“

Heininen sagði síðar við Helsinki Sanomat að riftunin á samningnum við sig hefði komið honum á óvart. „Mér hefði þótt vænt um að verða sýnd dálítið meiri kurteisi,“ sagði hann.

Heininen hefur áhyggjur af of litlum samskiptum um norðurslóðamál:

„Helmingur norðurskautssvæðisins er á rússnesku svæði. Ef við getum ekki skipst á skoðunum um hvað gerist á þessu svæði förum við að mis við miklar upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga.“

Föstudaginn 10. maí sagði Heininen við finnska ríkisútvarpið Yle: „Háskólinn ýtti á neyðarhnappinn.“

Hann sagði við Yle að þrátt fyrir að samningum við Lapplandsháskóla hefði verið rift myndi hann halda áfram að sinna vísindastörfum. Úkraínu-stríðinu lyki einhvern tímabb og þá þyrfti að huga að því hvort vísindamenn hefðu sameiginlegar forsendur til að hefja samstarf að nýju um málefni norðurslóða.´

Thomas Nilsen segir að Lassi Heininen hafi látið af störfum við Lappslandsháskóla fyrir aldurs sakir árið 2018 en gert starfslokasamning sem prófessor emeritus við skólann og síðan verið virkur þátttakandi í ráðstefnum og mannamótum um norðurslóðamál.

Heininen er ritstjóri Arctic Yearbook, árlegs yfirlits og greinasafns um norðurslóðamál, stjórnmál, stjórnarhætti og öryggismál.

Lassi Heininen átti einnig frumkvæði að því að skipuleggja samstarf fræðimanna og rannsakenda undir heitinu Calotte Academy, það árlega málstofu og rannsóknaþing um norðurslóðamál sem haldið er til skiptis í Lapplandi, Finnmörk í Noregi og í Múrmansk-héraði í Rússlandi.

Þá má geta þess að Lassi Heininen á sæti í ráðgjafaráði Arctic Circle (Hringborðs norðurslóða) undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. forseta Íslands. Heininen er formaður GlobalArctic Mission Council of the Arctic Circle. Hann hefur oft heimsótt Ísland og átt samvinnu við háskóla hér. Hafa íslenskir námsmenn og fræðimenn notið leiðsagnar hans, meðal annars við gerð doktorsritgerða.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …