Home / Fréttir / Langur skuggi Merkel-áranna hvílir yfir samskiptunum við Úkraínumenn

Langur skuggi Merkel-áranna hvílir yfir samskiptunum við Úkraínumenn

Vladimir Pútin og Angela Merkel.

Volodymyr Zelemskíj Úkraínuforseti sagði nýlega í einu af mörgum sjónvarpsávörpum sínum: „Ég vil gjarnan bjóða Angelu Merkel í heimsókn til Butja (Bucha) svo að hún sjái með eigin augum það sem hefur gerst.“

Butja, í útjaðri Kýív, og örlög íbúana þar hafa orðið að helsta tákni þess barbarisma sem einkennir framgöngu Rússa í Úkraínustríðinu. Hermenn þeirra eru sagðir hafa myrt hundruð almennra borgara á götum úti í bænum.

Í boðinu til Merkel er sá broddur að eftir 16 ára stjórnarforystu í Berlín beri hún höfuðábyrgð á að Vestrið leit undan og þóttist ekki sjá hvað gerðist í Rússlandi undir stjórn Pútins.

Merkel sá sig knúna til að gefa út yfirlýsingu þar sem hún fór hörðum orðum um árásarstríð Rússa en baðst ekki afsökunar á neinu.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra til margra ára í stjórn Merkel, gekk í sinni ráðherratíð lengra en Merkel þegar hann boðaði gildi náinna samskipta við Kremlverja hvað sem liði styrjöldum undir stjórn Pútins eða innlimun hans á Krím.

Steinmeier var nýlega endurkjörinn forseti Þýskalands og við það tækifæri baðst hann afsökunar á afstöðu sinni til Pútin-Rússlands og sagði meðal annars:

„Að því er varðar Nord Stream 2 [gasleiðsluna] hafði ég rangt fyrir mér eins og margir aðrir.“

Hann viðurkenndi að Þjóðverjar hefðu orðið allt of háðir rússneskri olíu og gasi og langtum fyrr hefðu þeir átt að viðurkenna raunveruleg markmið Pútins.

Að margra mati er hætta á að þessi gagnrýni á Merkel og afstöðu stjórna hennar til Pútins sé til þess fallin að draga athygli frá sögulegu stefnubreytingunni sem núverandi Þýskalandskanslari, Olaf Scholz, boðaði í þýska þinginu sunnudaginn 27. febrúar, þremur dögum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Í ræðunni hjó Scholz á línuna í þýskum stjórnmálum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar sem einkenndist af varúð vegna illvirkja á valdatíma nazista. Hann boðaði 100 milljarða evru aukafjárveitingu til þýska hersins í ár og á næstu árum yrðu útgjöldin aukin til að þau samræmdust markmiði NATO um 2% varnarútgjöld af vergri landsframleiðslu (VLF).

„Þessari ræðu hefur nú þegar verið ýtt til hliðar. Athyglin beinist enn á ný að því sem er, einnig á alþjóðavettvangi, talið til marks um þýskan seinagang og óbeit á að sýna Rússum virkilega hörku,“ sagði Robin Alexander, aðalritstjóri Die Welt, við sjónvarpsstöðina ARD.

Hann bendir einnig á að innan ESB ríki sú skoðun að Þjóðverjar stígi á bremsurnar þegar hert sé á refsingum gegn Rússum með ákvörðunum í Brussel.

Í þessu tilliti öllu er augljóst að Þjóðverjar glíma við viðkvæman vanda vegna þess hve þeir eru háðir rússnesku gasi. Enginn getur sagt að Þjóðverjar hafi ekki fengið viðvörun: Eftir innlimun Rússa á Krím og stríðið í Donbas árið 2014 ákvað Merkel-stjórnin engu að síður árið 2015 að tvöfalda flutningsgetu umdeildu Nord Stream gasleiðslunnar.

„Árið 2014 féllust stjórnmálamennirnir á sjónarmið orkufyrirtækjanna. Síðan hafa Þjóðverjar orðið háðari rússnesku fyrirtækjunum. Þetta er svört blaðsíða í sögunni,“ segir Veli-Pekka Tynkkynen, prófessor við Helsinki-háskóla með rússnesk orku- og umhverfismál sem sérgrein.

„Sumar rannsóknir sýna að verg landsframleiðsla Þjóðverja minnki um 2% verði hætt að flytja inn rússneska olíu og gas,“ segir Veli-Pekka Tynkkynen.

Hann bendir á að í Berlín láti stjórnmálamenn „efnahagsleg sjónarmið ráða meiru en öll önnur“ og þess vegna kunni þessi samdráttur í landsframleiðslu að þykja keyptur of dýru verði jafnvel þótt kjósendur séu fúsir að leggja ýmislegt á sig.

Í könnun sem gerð var fyrir ZDF-sjónvarpsstöðina styðja 55% Þjóðverja innflutningsbann en 39% eru andvíg því.

Ríkisstjórnin hefur kynnt varfærna aðgerðaáætlun: Í haust verði lokað fyrir innflutning á rússneskum kolum. Innflutningur á olíu verður skorinn niður um helming í ár. Rússneskt jarðgas hverfur á tveimur árum. Í áætluninni er leitast við að skapa jafnvægi milli dramatískra viðvarana atvinnulífsins og alþjóðlegs viðhorfs, þar á meðal innan NATO og ESB.

„Þetta er mjög flókið ástand, sem ekki verður breytt í einum rykk.“ segir Robert Habeck, orkumálaráðherra Þýskalands.

Það bætir ekki úr skák að jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, fyrrverandi kanslari, sýnist láta sér í léttu rúmi liggja þótt hann sæti harðri gagnrýni fyrir að gegna lykilhlutverki innan rússneska orkugeirans. Á alþjóðavettvangi og heimavelli er litið á Schröder sem alvarlega byrði og óþægilega sönnun fyrir þýskri auðsveipni gagnvart Kremlverjum.

„Schröder er vel á veg kominn með að eyðileggja þá velvild sem stefnubreyting Scholz hefði annars skapað Þjóðverjum,“ segir Melanie Amann aðalritstjóri í vikuritinu Der Spiegel.

Þjóðverjar sæta einnig gagnrýni fyrir að draga lappirnar við sendingu vopna til Úkraínu. Þar sæta þeir stöðugum og þungum þrýstingu frá Úkraínustjórn.

Í lok nýliðinnar viku var birt uppgjör sem sýnir að Þjóðverjar hafa sent vopn fyrir 186 milljónir evra til Úkraínu en mun fámennari Eistlendingar fyrir 222 milljónir evra. Þjóðverjar neita auk þess að láta í té þungavopn.

Það hefur dregist á langinn að senda Úkraínumönnum varnarvopn gegn skriðdrekum og skotflaugar úr gömlum vopnabúrum DDR (Austur-þýska alþýðulýðveldisins). Mörg vopnanna virtust biluð. Nú fyrst hefur þýska stjórnin gefið grænt ljós svo að Tékkar geti afhent 58 létta vígdreka sem framleiddir voru í DDR. Merkel-stjórnin hafnaði árið 2019 ósk um að láta drekana af hendi.

Umræður um þessi mál í Þýskalandi þykja sýna hve vel Pútin hefur tekist að tala um fyrir þýsku elítunni, segir einn álitsgjafi.

„Að stofna til sérstaks samstarfs við Þjóðverja var meistarastykki hjá Pútin, fyrrverandi sérfræðingi í þýskum málefnum hjá KGB og sérfræðingi í vélabrögðum,“ segir Ulrich Speck, greinandi alþjóðastjórnmála hjá Neue Zürcher Zeitung.

 

Heimild: Jyllands-Posten, Poul Funder Larsen og Jørn Mikkelsen

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …