Home / Fréttir / Langt í land innan ESB við mótun sameiginlegrar öryggisstefnu

Langt í land innan ESB við mótun sameiginlegrar öryggisstefnu

Einkennismerki sameiginlegs hers innan ESB.
Einkennismerki sameiginlegs hers innan ESB.

Á öryggisráðstefnunni í München sem lauk sunnudaginn 18. febrúar lýstu háttsettir fulltrúar margra Evrópuríkja nauðsyn þess að mótuð yrði sameiginleg stefna ESB í öryggismálum. Kynntu þeir tillögur um hvernig tryggja mætti öryggi sambandsins í heimi þar sem öryggisleysi eykst.

Lewis Sanders, sérfræðingur þýsku fréttastofunnar DW, segir að fjöldi tillagnanna veki spurningar um hvort leiðtogar ESB-ríkjanna séu nægilega samstiga um helstu viðfangsefnin í öryggismálum til að unnt verða að móta sameiginlega stefnu.

Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, virtist viðurkenna þetta þegar hann sagði í ræðu sinni að ESB þyrfi ekki aðeins að verða sér úti um sameiginleg verkfæri í utanríkismálum heldur einnig að „móta innri samstöðu“ um sameiginlega hagsmuni.

Lewis Sanders spyr af þessu tilefni hvernig unnt sé að móta slíka samstöðu þegar ríki skilgreini ógnir í öryggismálum á jafn ólíkan hátt og við blasi og forgangsraði samhliða því í þágu eigin þjóðarhagsmuna.

Hann vitnar í Sebastian Kurz, forsætisráðherra Austurríkis, og Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, og það sem þeir sögðu um ólöglega innflytjendur til að styðja sjónarmið sitt.

Í augum Kurz skiptir höfuðmáli að tryggja ytri landamæri ESB og stöðva straum ólöglegra innflytjenda. Kurz segir að þar sé um tilvistarógn að ræða við menningararf Austurríkis og Evrópu.

Kurz sagði að ESB yrði að beina athygli að því „sem ákvarðar hver við erum – Evrópa mótuð af arfi kristni og upplýsingarinnar þar sem ekki er til umræðu að hrófla við réttarríkinu, lýðræði og mannréttindum“.

„Stundum er engu líkara en við einhvers beygt í ranga átt,“ sagði Kurz. „Sé ekki viðunandi varðstaða við ytri landamæri er innri landamærunum ógnað.“

Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, telur hins vegar að ESB eigi ekki að móta sameiginlega öryggisstefnu reista á skammtímamarkmiðum varðandi ólöglega innflytjendur. Þess í stað á ESB að snúa sér að „undirrót“ þess sem veldur ógn við öryggið, þar á meðal komu farand- og flóttafólks.

Philippe sagði að „ógnum við evrópskt öryggi“ yrði ekki svarað með auknum vörnum eða löggæslu. Hann benti á að Frakkar hefðu ákveðið að stofna til meiriháttar stuðningsverkefna og fjárfestinga í Afríku til að sporna gegn vaxandi flutningi fólks frá álfunni til Evrópu.

Niðurstaða Lewis Sanders er að á öryggisráðstefnunni í München árið 2018 hafi komið í ljós að löng leið sé fyrir höndum innan ESB áður en þar verði til fullbúið „öryggisamband“.

 

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …