
Sex Tupolev Tu-22M3 Backfire sprengjuþotur hafa enn á ný ráðist á bækistöðvar Daesh (Ríki íslams) skammt frá Deir ez-Zor í Sýrlandi sagði í tilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins sunnudaginn 14. ágúst.
Hér er um landrægar sprengjuþotur að ræða sem hófu leiðangur sinn að morgni sunnudags 14. ágúst í Rússlandi og sendu að sögn varnarmálaráðuneytisins sprengjur sínar nákvæmlega á þau skotmörk sem ákveðin höfðu verið í Sýrlandi. Þeim var ætlað að valda tjóni á bækistöðvum Daesh fyrir suðvestan, austan og norðaustan borgina Deir ez-Zor.
Ráðuneytið segir að tvær stjórnstöðvar Daesh hafi verið eyðilagðar, sex stórar skotfærageymslur, tveir skriðdrekar og fjórir bryndrekae auk sjö þungvopnaðra torfærubíla, þá hafi margir vígamenn fallið í árásinni. Öryggi sprengjuvélanna var tryggt af orrustuþotum sem sendar voru á loft frá Hmeymin-flugvelli í Sýrlandi.
„Eftir velheppnaða árás sneru allar rússnesku fugvélarnar aftur til bækistöðva sinna í Rússlandi,“ segir í lok tilkynningar varnarmálaráðuneytisins.
Í frétt Tass-fréttastofunnar segir að þetta sé í þriðja sinn í þessum mánuði sem langdrægar sprengjuvélar séu sendar til árása á skotmörk í Sýrlandi. Tu-22M3-vél hafi ráðist að bækistöð Daesh skammt frá Palmyra 8. ágúst og ráðist hafi verið á skotmörk nálægt Raqqa 11. ágúst. Í júlí voru langdrægar rússneskar sprengjuvélar sendar til árása í Sýrlandi dagana 12. 14. og 21.
Heimild: Tass