Home / Fréttir / Landsbergis vill að ESB styðji Úkraínu til sigurs

Landsbergis vill að ESB styðji Úkraínu til sigurs

Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens.

Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens, hvatti til þess fimmtudaginn 31. ágúst að forystumenn Evrópuríkja hættu að orða stuðning sinn við Úkraínu með því að segjast styðja Úkraínumenn „eins lengi og þörf er“. Í stað þess ætti að „styðja Úkraínumenn til sigurs“.

Hann sagði að geti Evrópuríki ekki sagst vilja sigur Úkraínumanna sé það vegna „annarra kosta í stöðunni og hann er aðeins einn, sigur Pútíns“.

Sigri Pútin leiðir það til hörmunga „ekki aðeins fyrir land mitt“ sagði ráðherrann heldur fyrir Evrópusambandið og svæði utan þess eins og Svartahaf.

Evrópuríkin yrðu þess vegna að vera markvissari og opnari í stuðningi sínum við Úkraínu og baráttu úkraínsku þjóðarinnar.

„Við verðum að standa með Úkraínu þar til Úkraínumenn sigra, Við viljum að það gerist sem fyrst en ekki einhvern tíma,“ sagði hann við komuna á utanríkisráðherrafund ESB-ríkjanna í Tóledó á Spáni.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, situr fundinn í Tóledó.

Litháar eru meðal öflugustu bandamanna Úkraínumanna. Gitanas Nausėda Litáhenforseti tók þátt í þjóðhátíðarhöldum Úkraínumanna í Kyív 24. ágúst.

Arvydas Anusaukas, varnarmálaráðherra Litháens, segir að ríkisstjórn Litháens hafi stutt Úkraínu hernaðarlega fyrir meira en 500 milljón evrur síðan Rússar hófu innrás sína 24. febrúar 2022.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …