Home / Fréttir / Landgönguliðar í fótspor Clints Eastwoods í Sandvík

Landgönguliðar í fótspor Clints Eastwoods í Sandvík

Úr kvikmyndinni ssem Clint Eastwood gerði og tekin var að hluta í Sandvík.
Úr kvikmyndinni ssem Clint Eastwood gerði og tekin var að hluta í Sandvík.

Albert Jónsson, fyrrv. sendiherra, ræðir Trident Juncture 2018 heræfinguna sem verður síðar í mánuðum í Noregi og undan strönd Noregs fyrir norðan í nýjum pistli á vefsíðu sinni (www.albert-jonsson.com/ ) mánudaginn 15. október.

Á níunda áratugnum var Albert framkvæmdastjóri Öryggismálanefndar forsætisráðuneytisins og fjallaði meðal annars mikið um sovéska flotann og umsvif hans í nágrenni Íslands. Hann segir nú að Trident Juncture 2018 minni að mörgu leyti á heræfingar á níunda áratugnum vegna varna Noregs og áætlana NATO um að sækja í stríði norður Noregshaf til árása á sovéska norðurflotann. Markmiðið með þeirri stefnu hafi verið, auk þess að verja Noreg, að halda Norðurflotanum uppteknum við að verja eldflaugakafbáta í Barentshafi og hafnir og flugvelli á Kolaskaga. Það átti meðal annars að létta á herjum NATO gegn ofurefli Sovétríkjanna og bandamanna þeirra á meginlandi Evrópu. Þetta hafi orðið mikilvægur þáttur í fælingarstefnu NATO gegn Sovétríkjunum. Þá segir orðrétt:

„Nú eru aðstæður allt aðrar á meginlandinu og rússneski flotinn miklu minni en sá sovéski var. Flotastyrkur NATO ríkjanna er einnig mun minni en í kalda stríðinu. Hins vegar og líkt og þá er kjarnavopnajafnvægið milli Bandaríkjanna og Rússlands áfram lykilatriði varðandi hernaðarlega þýðingu norðurslóða og hugsanleg átök þar.  Af þessum ástæðum hafa Norður Noregur og Noregshaf sem fyrr hernaðarlega þýðingu og vægi í fælingarstefnu NATO gegn Rússlandi. Ísland tengist þeirri stöðu. […]

Trident Juncture 2018 fer fram á Íslandi á tímabilinu 16.-21. október og í Noregi 25. október til 23. nóvember. Í æfingunni taka þátt um fimmtíu þúsund hermenn og borgaralegir sérfræðingar frá meira en þrjátíu aðildarríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum, þar á meðal Svíþjóð og Finnlandi.  Langstærstur hluti æfingarinnar á sér stað í Noregi. Gert er ráð fyrir að 150 flugvélar, 60 skip og 10.000 farartæki taki þátt og verður þetta stærsta heræfing í Noregi frá því á níunda áratug síðustu aldar og stærsta æfing NATO síðan 2015. Meðal herskipa í æfingunni verður bandaríska flugvélamóðurskipið Harry S. Truman en bandarískt flugvélamóðurskip hefur ekki komið á þessar slóðir síðan 1987.“

Í lok pistilsins segir Albert:

„Æfingin 16. október [á Íslandi] vegna árásar á stjórnstöð landhelgisgæslunnar [á Keflavíkurflugvelli] er væntanlega miðuð við hugsanlega árás skemmdarverkasveita. Landgönguæfingin í Sandvík og vetraræfingin í Þjórsárdal snúast að öllum líkindum um almenna þjálfun fremur en viðbrögð við hugsanlegri innrás rússnesks herliðs í Ísland, en hana má útiloka. Áhugi landgönguliðsins á æfingunni í Sandvík kann að hafa kviknað vegna þess að þar var verulegur hluti kvikmyndarinnar Flags of Our Fathers tekinn sumarið 2006 undir stjórn leikstjórans og leikarans Clints Eastwood. Kvikmyndin fjallaði um innrás bandarískra landgönguliða á eyjuna Iwo Jima á Kyrrahafi í síðari heimsstyrjöld og og fræga orrustu í kjölfarið við japanskt herlið á eynni.“

Þriðjudaginn 16. október kl. 17.00 flytur James G. Foggo flotaforingi, stjórnandi Trident Juncture 2018, fyrirlestur á vegum Varðbergs í Norræna húsinu.

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …