Home / Fréttir / Landflótta flotaforingi ögrar Erdogan á Twitter

Landflótta flotaforingi ögrar Erdogan á Twitter

 

Hér er Cafer Topkaya eftir að hann sneri aftur frá Tyrklandi.
Hér er Cafer Topkaya eftir að hann sneri aftur frá Tyrklandi.

Tyrknesk yfirvöld stimpluðu fyrirverandi háttsettan herforingja í starfsliði NATO í Brussel sem „hryðjuverkamann“ og fangelsuðu hann. Honum tókst að flýja aftur til Brussel og fimmtudaginn 9. ágúst birtir fréttastofan Deutsche Welle (DW) viðtal sem Teri Schultz tók við flotaforingjann fyrrverandi, Cafer Topkaya.

Í samtalinu segir Cafer Topkaya að hann gangi framskjöldu fyrir alla sem geti ekki sagt skoðun sína í fjölmiðlum, rætt við blaðamenn eða lögfræðinga sína þar sem þeir séu lokaðir inni í fangelsum og fái ekki einu sinni tækifæri til að sanna sakleysi sitt. Hann hræðist hvorki Erdogan né samverkamenn hans eða tyrknesku leyniþjónustuna. Hann vilji að á Vesturlöndum viti menn um það sem gerist í Tyrklandi um þessar mundir. Hóf hann í lok júlí að setja færslur á Twitter sem vekja mikla athygli í Tyrklandi.

Topkaya er einn af mörg þúsund tyrkneskum herforingjum sem Erdogan fordæmdi einhliða sem stuðningsmenn Fethullahs Gülens, múslimaklerks sem er landflótta í Bandaríkjunum. Erdogan segir Gülen hafa staðið að baki misheppnaðri tilraun til valdaráns í Tyrklandi árið 2016 og stjórnað henni frá dvalarstað sínum í Pennsylvaníu. Í fjölda-hreinsunum Erdogans sem enn eru á dagskrá í Tyrklandi hefur spjótum mjög verið beint að hermönnum sem hlutu þjálfun eða störfuðu á Vesturlöndum. Þeim var nær öllum skipað að snúa aftur til höfuðborgarinnar Ankara og „sitja fyrir svörum“ eins og það var orðað en flestir voru í raun sendir beint í fangelsi.

Margir urðu ekki við þessum fyrirmælum og urðu við það ríkisfangslausir í löndunum þar sem þeir bjuggu þegar tyrknesk stjórnvöld afturkölluðu vegabréf þeirra og felldu niður launagreiðslur til þeirra. Topkaya var boðaður til „mikilvægs fundar“ í Ankara í október 2016 og af skyldurækni við land og þjóð hlýddi hann kallinu. Hann taldi sér trú um að svör sín við hefðbundum spurningum mundu strax leiða í ljós að hann átti ekki neina aðild að valdaránstilraun Gülenista.

„Ég hef aldrei verið nálægt Gülen-hreyfingunni,“ segi Topkaya. „Ég held mig frá trúmálum. Menntun mín var af vestrænum toga. Ég virði öll trúarbrögð, allar hugsjónir án þess að tilheyra einhverri þeirra.“ Hann taldi að starfsferill sinn sem æviráðins flotaforingja og með æðstu öryggisvottun NATO mundi veita sér skjól. Meskure, kona hans, var sömu skoðunar og hafði engar áhyggjur þegar hann kvaddi fjölskyldu sína með það í huga að hitta hana að nýju eftir tvo daga.

Aðskilnaðurinn stóð hins vegar í rúma 16 mánuði. „Fundarboðið“ var blekking og Topkaya var kyrrsettur í varnarmálaráðuneytinu, opinber skilríki hans voru gerð óvirk svo að lögregla gæti tekið hann á brott með sér. Fyrrverandi, tyrkneskir samstarfsmenn hans stimpluðu hann nú sem „hryðjuverkamann“ sögðu hann halda úti reikningi á Twitter með óhróðri um Erdogan, gilti engu þótt hann mótmælti og segðist á þessum tíma aldrei hafa átt reikning á Twitter hvað þá meir.

Topkaya var fyrst geymdur í skólahúsnæði sem breytt hafði verið en var síðar fluttur í alræmt fangelsi, Sincan-fangelsið. Hann segist hafa sofið á steingólfi í sömu fötum í 12 nætur, matur var lítill. Auk hans voru þarna aðrir háttsettir hermenn, háskólamenn, dómarar, forystumenn félagasamtaka og jafnvel læknar. Hann segist ekki hafa mátt þola harðar andlegar og líkamlegar pyntingar sem aðrir sættu og hlutu af sár og limlestingar.

Herforingi sem hafnaði ásökunum um að hafa átt aðild að valdaránstilrauninni mátti þola að kona hans væri oft kölluð til yfirheyrslu og ungum börnum hans væri ógnað. Annar var neyddur til að skrifa undir játningu á meðan hann sat í stól sem veitti honum raflost.

Topkaya ætlaði að telja dagana sem hann sæti inni en að lokum runnu þeir saman í eitt og hann gat það ekki. Þegar hann var leiddur í fyrsta sinn fyrir rannsóknardómara var hann máttvana líkamlega og andlega vegna fæðuskorts. Hann komst fljótt að því að örugg staða sín innan NATO, sem hann taldi bestu vörn sína, var talin til marks um „afbrot“ hans. Dómarinn sagði: „Þú vinnur fyrir NATO, er það ekki?“ Hann svaraði: „Já, ég vinn í höfuðstöðvunum fyrir hönd tyrkneska hersins og mér var falið það af yfirmanni tyrkneska hersins.“ Það dugði honum þó ekki því að hann segir að það sé talið til alvarlegra afbrota nú í Tyrklandi að vera hlynntur Vesturlöndum og hlynntur NATO.

Það varð Topkaya til bjargar andlega í rúma 16 mánuði að geta haft samband við skyldmenni sín og fá bréf frá konu sinni og börnum.

Loks var honum tilkynnt að undirbúningur málaferla gegn honum mundi taka lengri tíma en ætlað var. Telur Topkaya það stafa af sönnunarskorti. Honum var sleppt úr fangelsi en settur í gæslu hjá foreldrum sínum og skyldi hann vikulega gera lögreglu grein fyrir ferðum sínum. Lögfræðingur hans sagði líkur á að hann yrði handtekinn að nýju. Heima fyrir fann Topkaya gamalt borgarlegt vegabréf sem enn var í gildi. Þrátt fyrir húsleit höfðu yfirvöld ekki fundið það. Hann ákvað að reyna undankomu.

Viku síðar hitti hann fjöldskyldu sína að nýju í Brussel. Hann vill ekki segja hvernig hann komst úr landi til að spilla ekki fyrir öðrum sem hafa sama í huga. Eftir nokkra mánaða hvíld til að endurheimta krafta sína ákvað Topkaya að segja sögu sína opinberlega í von um að leggja öðrum lið með því þótt það kalli hættu yfir fjölskyldu hans.

Til að koma skoðunum sínum á framfæri ákvað hann loks að stofna Twitter-reikning þar sem hann lýsir eigin reynslu og því sem hann telur að aðrir megi reyna. Hann segir að viðbrögðin í Tyrklandi séu mikil, um 90% séu á sínu máli en um 10% ákaflega reiðir yfir orðum hans.

Í blöðum tyrkneskra stjórnvalda er honum lýst sem „svikara“ og soðnar eru saman fréttir um að hann og aðrir foringjar í svipaðri stöðu haldi leynilega „samsærisfundi“ í Þýskalandi. „Mér léttir við hverja færslu,“ segir hann brosandi „og ég veit að vondu köllunum er illa við þær.“

Félagar Topkaya í hópi NATO-foringja sem lentu í tyrknesku ofsóknunum dást að hugrekki hans. Þeir vita að „armur Erdogans“ er langur og enginn er óhultur fyrir honum. Herforingjarnir fyrrverandi forðast öll samskipti við Tyrki búsetta í Belgíu til að halda sig frá útsendurum Erdogans í þeim hópi. Fái útsendararnir skipun frá forsetanum eða mönnum hans framkvæmi þeir hana sama hvert óhæfuverkið er.

Topkaya segist ekki óttast afleiðingar gjörða sinna né sjá eftir þeim. Hann telur sig ekki á flótta undan Erdogan. Þvert á móti vill hann rísa gegn honum og öðrum sem beita sér fyrir ofsóknunum. Það sem ýti undir þá sé ótti venjulegs, saklauss fólks við þá. „Við erum saklaus. Við erum réttu megin. Við eigum að sýna meira, hugrekki.“

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …