Home / Fréttir / Læknahópur ávallt á ferð með Pútin

Læknahópur ávallt á ferð með Pútin

Vladimir Pútin ræðir við lækni.

Fjölmiðlamenn beina í vaxandi mæli athygli að heilsufari Vladimirs Pútins Rússlandsforseta. Af hálfu upplýsingafulltrúa hans hefur ætíð verið farið með heilsu hans sem trúnaðarmál. Lengst af tóku allir það gott og gilt. Síðan fjölgaði dögum þegar Pútin dró sig alveg í hlé. Þá komst sá orðrómur á flug að hann leitaði sér lækninga. Einnig spurðist að Pútin ferðaðist aldrei án nokkurs fjölda lækna. Rússneski rannsóknarhópurinn Proekt hefur kynnt sér heilsufar Rússlandsforseta og útdráttur úr niðurstöðu hópsins birtist á rússnesku vefsíðunni Meduza laugardaginn 2. apríl.

Proekt minnir á að í upphafi forsetaferils síns hafi Pútin komið fram sem „virkur karlmaður á besta aldri“. Hann fór sjaldan í læknisskoðun og hugsaði lítið um heilsuna almennt, fengi hann hita lét hann það ekki trufla sig. Í Kreml vildu menn ekki að neitt neikvætt yrði sagt um heilsufar Pútins, hann átti að kynna sem hrausta útivistar- og veiðimanninn.

Pútin hafði á þessum árum gaman að bregða sér á hestbak en Proekt segir að því hafi fylgt vandræði vegna þess að hann datt oft af baki og eftir eitt slíkt fall gat hann ekki staðið á fætur og þurfti stranga og langa meðferð til að ná sér.

Þegar Pútin lagði árið 2012 blómsveig á minnisvarða um Minin og Pozharskíj, rússneskar frelsishetjur á Rauða torginu, var hann greinilega haltur. Reynt var að koma í veg fyrir að það sæist í sjónvarpi og myndskeið frá viðburðinum var aldrei sett á vefsíðu Kremlar. Fréttastofum var stranglega bannað að segja frá því að forsetinn væri haltur. Undir árslok hafði heltin ágerst og þess vegna var ákveðið að forsetinn tæki aldrei þátt í neinni athöfn nema í eina klukkustund.

Um þetta leyti hættu starfsmenn Kremlar að sýna beint frá viðburðum með forsetanum, aðeins voru sýndar upptökur af því þegar hann hitti undirmenn sína. Þetta gerði forsetanum kleift að „láta sig hverfa“ þegar honum hentaði. Hann gerði það æ oftar og segir Proekt það til marks um að heilsu hans hrakaði. Upptökur voru notaðar í mars 2015, ágúst 2017, febrúar 2018 og september 2021 til að blekkja þegar hann var í raun fjarverandi.

Með aldrinum hallaði Pútin sér einnig að óhefðbundnum lækningum. Proekt hefur til dæmis eftir kunningja hans að hann baði sig úr vökva sem verður til þegar hreindýrshorn eru soðin. Þessi aðferð á að styrkja æðakerfið og yngja upp húðina. Er sagt að Sergeij Shoigu varnarmálaráðherra hafi mælt með henni við Pútin. Hvað sem líður ágæti þessa er sagt að böðin njóti vinsælda meðal annarra háttsettra Rússa.

Pútin hefur árum saman heimsótt Miðlæga klíníska sjúkrahúsið í Kuntsevo-hverfi í Moskvu og ferðum hans þangað fjölgar. Proekt segir að þar sé „deild einkalækna“ sem sinni Pútin. Þeir fylgja honum á ferðalögum og fljúga í sjúkravitjanir til dvalarstaða hans utan Moskvu.

Rannsóknir Proekt á innkaupa- og útgjaldasíðu rússneska ríkisins leiða í ljós dagsetningar flugferða læknanna til dvalarstaða Pútins utan Moskvu þegar hann ferðast opinberlega eða á tímabilum sem hann sést ekki opinberlega.

Á árunum 2016-2017 voru að jafnaði fimm læknar í fylgdarliði forsetans og stundum fjölgaði þeim „dramatískt“. Í nóvember 2016 sást Pútin til dæmis ekki opinberlega í fimm daga og á sama tíma opnuðu 12 læknar í skyndi starfsstöð í Sotsjí. Fyrst voru það einkalæknar Pútins, síðan hópur taugaskurðlækna og loks sérfræðingur í endurhæfingu. Aðgerðin tókst greinilega vel segir Proekt. Pútin ávarpaði sambandsþing Rússlands 1. desember. Ári síðar heiðraði hann yfirlækni taugaskurðlæknanna.

Árið 2019 fylgdu að meðaltali níu læknar Pútin á ferðum hans. Oftast voru tveir háls-, nef- og eyrnalæknar í hópnum ásamt skurðlækni. Hann sérhæfði sig, þar til fyrir skömmu að minnsta kosti, í meðferð á krabbameini og skjaldkirtli. Þá segir Proekt að opinberlega hafi Pútin lýst áhuga á vandamálum vegna krabba í skjaldkirtli.

Fram kemur að á meðal lækna sé mikið rætt um „heilsuvanda forsetans“. Einkum hafi áhuginn magnast þegar Pútin fór að sjást að nýju opinberlega eftir að hafa lengi verið í sjálfskipaðri sóttkví vegna COVID-19-faraldursins. Sérstaka athygli vöktu orð Pútins 13. september 2021 þegar hann sagði fötluðum íþróttamönnum að hann þyrfti að vera í sóttkví vegna þess að of margir næst sér hefðu fengið kórónuveiruna. Þótti þeim sem áttu mest samskipti við forsetann þessi ummæli „undarleg“.

Pútin sást ekki meira það sem eftir var af september 2021. Ekki er vitað hvort hann lagðist undir læknishendur á þessum dögum. Blaðamenn Proekt benda á að eftir þessa einangrun hafi Pútin tekið til við að halda öðrum í fjarlægð frá sér á fundum – oftast með því að sitja fjarri þeim við enda á löngu borði.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …