
Stjórnvöld í Washington og Moskvu skiptast á ásökunum um hættulega siglingu tveggja herskipa þegar ekki munaði nema nokkrum tugum metra að þau rækjust hvort á annað á Filippseyjahafi í Austur-Asíu. Nokkrum dögum áður átti svipað atvik sér stað milli flugvéla yfir Sýrlandi.
Um var að ræða bandaríska stýriflauga-beitiskipið USS Chancellorsville og rússneska tundurspillinn Admiral Vinogradov sem voru föstudaginn 7. júní á siglingu á Filippseyjahafi. Talið er að innan við 50 m hafi verið milli skipanna þegar þau voru næst hvort öðru.
Talsmaður 7. flota Bandaríkjanna í Japan segir að rússneski tundurspillirinn hafi skapað hættuástand með för sinni og stjórnendur Chancellorsville hafi orðið að setja á fulla ferð aftur á bak og beygja af leið til að komast hjá árekstri.
Bandaríska skipið var á hægri ferð og beið þess að taka á móti þyrlu um borð. Rússneski tundurspillirinn setti að sögn Bandaríkjamanna á fulla ferð í áttina að skipinu.
Rússar segja hins vegar að bandaríska skipið hafi skyndilega breytt um stefnu og siglt í veg fyrir Admiral Vinogradov í aðeins 50 m fjarlægð.
Rússar segja að atvikið hafi orðið á Austur-Kínahafi en ekki Filippseyjahafi.