Home / Fréttir / Kýpverjar stöða ESB-samstöðu gegn Lukasjenko

Kýpverjar stöða ESB-samstöðu gegn Lukasjenko

 

Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB.
Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, segir að trúverðugleiki ESB sé í húfi eftir að utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna náðu ekki samkomulagi um refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum Hvíta-Rússlands mánudaginn 21. september. Utanríkisráðherra Kýpur rauf nauðsynlega samstöðu ríkjanna.

Ráðamenn ESB í Brussel neita að viðurkenna úrslit forsetakosninganna í Hvíta-Rússlandi 9. ágúst 2020. Yfirkjörstjórn lýsti Alexander Lukasjenko, forseta síðan 1994, réttkjörinn í embættið í sjötta skipti með 80% atkvæða. Andstæðingar forsetans segja að um kosningasvindl sé að ræða.

Brusselmenn hafa einnig fordæmt hörku hvít-rússneskra stjórnvalda gegn þeim sem fara í mótmælagöngur til að árétta skoðanir sínar. Áform um ESB-refsiaðgerðir voru kynnt og sagt að til þeirra yrði gripið „með hraði“. Það gerist ekki.

Borrell boðaði snemma í september að á fundi sínum mánudaginn 21. september tækju utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna af skarið um aðgerðir gegn hvít-rússenskum embættismönnum.

Eftir ráðherrafundinn sagði Borrell við blaðamenn að þrátt fyrir augljósan vilja fundarmanna til að hefja refsiaðgerðir hefði það ekki verið „hægt í dag vegna þess að ekki ríkti einhugur um það“. Og hann bætti við: „Kýpverjar standa ekki að málinu.“

Nikos Christodoulides, utanríkisráðherra Kýpur, neitar að samþykkja refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum Hvíta-Rússlands nema ESB-ráðherrarnir samþykki svipaðar aðgerðir gegn stjórnvöldum í Tyrklandi vegna ólöglegra gas- og olíuborana þeirra í efnahagslögsögu Kýpur.

Í samtali við Euronews sagði Nikos Christodoulides:

„Lýðveldið Kýpur styður refsiaðgerðirnar og beitir ekki neitunarvaldi varðandi Hvíta-Rússland. Á hinn bóginn var tekin ákvörðun um að tillögurnar um refsiaðgerðir gegn Hvíta-Rússlandi og tillögurnar frá Kýpur varðandi Tyrkland hefðu samhliða framgang svo að það mætti hrinda þeim tafarlaust í framkvæmd.“

Leiðtogaráð ESB kemur saman í Brussel fimmtudaginn 24. september og er talið að þar verði hoggið á þennan hnút.

Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sakaði Kýpverja um að taka málefni Hvíta-Rússlands „í gíslingu“ og sagði að með þessu fengju Hvít-Rússar og allir aðrir „röng skilaboð“.

Borrell sagðist telja sig persónulega skuldbundinn til að fá agerðirnar vegna ástandsins í Hvíta-Rússlandi samþykktar. Málið snerti nú orðið mjög trúverðugleika ESB og getuna til að ná saman um utanríkisstefnu og um að refsa Lukasjenko. „Takist okkur það ekki skil ég fullkomlega að trúverðugleiki okkar sé í húfi,“ sagði utanríkismálastjórinn.

Fyrir fundinn ávarpaði Svetlana Tsikhanouskaja, sem bauð sig fram gegn Lukasjenko, utanríkisráðherrana og hvatti þá til að sýna „meira hugrekki“ og hvetja til að kosningar yrðu boðaðar að nýju í Hvíta-Rússlandi. Til þess þyrfti að beita refsivaldi.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …