Home / Fréttir / Kynnir áætlun um fækkun bandarískra hermanna í Þýskalandi

Kynnir áætlun um fækkun bandarískra hermanna í Þýskalandi

image

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti miðvikudaginn 29. júlí að tæplega 12.000 bandarískir hermenn yrðu fluttir frá herstöðvum í Þýskalandi til stöðva annars staðar í Evrópu eða heim til Bandaríkjanna.

„Mikilvægt er að hafa í huga að í 71 árs sögu NATO hefur stærð, samsetning og staðsetning bandarísks herafla í Evrópu breyst mörgum sinnum,“ sagði Esper á blaðamannafundi. „Þar sem nú er hafin ný lota í stórveldakeppni erum við á nýjum hverfipunkti í sögu NATO. Ég er sannfærður um að bandalagið batni og styrkist vegna þessa.“

Áætlað er að flytja um 5.600 bandaríska hermenn frá Þýskalandi til annarra NATO-landa, einkum Belgíu og Ítalíu. Þá verði um 6.400 hermenn kallaðir heim til nýrra varanlegra stöðva í Bandaríkjunum.

Esper sagði að um 24.000 bandarískir hermenn yrðu áfram í Þýskalandi eftir þessa fækkun þar. Innan nokkurra vikna yrði hafist handa við flutninginn.

Bandaríska Evrópuherstjórnin, EUCOM, sem fer með yfirstjórn alls bandarísks herafla í Evrópu, á að flytja 600 hermenn sína og 300 borgaralega starfsmenn frá núverandi höfuðstöðvum í Stuttgart í Þýskalandi til Mons í Belgíu en þar er aðsetur aðalherstjórnar NATO, SHAPE.

Esper sagði að með því að flytja hermenn frá Þýskalandi næðu Bandaríkjamenn ýmsum markmiðum sínum: fælingarmáttur gagnvart Rússum ykist, NATO efldist og sveigjanleiki herafla í Evrópu sem styrkti öryggiskennd þjóða þar.

Varnarmálaráðherrann sagði að það hefði flýtt fyrir þessum ákvörðunum ráðuneytis síns að Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf fyrirmæli í júní um brottflutning herafla frá Þýskalandi. Þá væri unnið að endurskoðun á úthaldi bandarískra hermanna víðar í heiminum og kynni hún að leiða til breytinga.

Samhliða því sem Esper og aðrir yfirmenn Bandaríkjahers sögðu að breytingar á heraflanum Þýskalandi tækju mið af strategískum markmiðum og vilja til að styrkja NATO bárust önnur boð frá Trump. Hann sagðist vilja refsa Þjóðverjum:

„Við fækkum í herliðinu af því að þeir [Þjóðverjar] borga ekki reikninga sína. Þetta er mjög einfalt, þeir eru í vanskilum.“

Árlega leggja NATO-ríkin bandalaginu til um það bil 2,5 milljarða dollara, hvor um sig greiða Bandaríkjamenn og Þjóðverjar um 16% þessa framlags í ár. Trump hefur frá því að hann varð forseti gagnrýnt bandalagsríki fyrir að greiða ekki 2% af eigin landsframleiðslu til eigin varna. NATO-ríkin samþykktu árið 2014 að þessu marki yrði náð árið 2024.

Á fjárlagaárinu 2019 var þetta hlutfall 1,36% í Þýskalandi og Angela Merkel kanslari sagði að 2% markið næðist ekki fyrr en skömmu eftir 2030. Reitti það Trump til reiði.

Af 30 NATO-ríkjum verja nú níu ríki 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála. Í Bandaríkjunum var hlutfallið um 3,4% árið 2019. Hvergi í heiminum eru útgjöld til hermála meiri en í Bandaríkjunum.

Framkvæmd fækkunar bandarískra hermanna í Þýskalandi kann að tefjast vegna andstöðu við þessar breytingar í báðum flokkum á Bandaríkjaþingi.

Fyrrverandi yfirmenn Bandaríkjahers í Evrópu gagnrýna þessar ákvarðanir og segja þær rangar. Ben Hodges, fyrrv. hershöfðingi, sagði til dæmis við þýsku DW-fréttastofuna: „Þjóðverjar eru mikilvægustu bandamenn Bandaríkjamanna í Evrópu.“ Hann sagði að brottflutningur hermannanna væri „gjöf til Kremlverja“.

Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, gagnrýndi ákvörðun Bandaríkjastjórnar, hún ætti sér engin skýr hernaðarleg rök, veikti NATO og Bandaríkin sjálf. „Því miður er þetta íþyngjandi fyrir samskipti Þjóðverja og Bandaríkjamanna,“ sagði Söder. „Við skulum sjá hvað þetta varir lengi.“ Vísaði hann þar til bandarísku forsetakosninganna í nóvember.

Í fyrri viku skrifuð Söder og forsætisráðherrar þýsku sambandslandanna Baden-Württemberg, Hessen og Rheinland-Pfalz bréf til þingmanna í öldunga- og fulltrúadeildum Bandaríkjaþings og fóru þess á leit að þeir beittu sér gegn áformunum um brottflutning hermannanna frá Þýskalandi. Þeir sögðu að liðsaflinn væri „meginstoð bandarískrar viðveru í Evrópu og viðbragðshæfni NATO“.

Þá sögðu þýsku stjórnmálamennirnir: „Við förum því þess vegna á leit að þið styðjið okkur í viðleitni gegn því að vegið sé að vináttuböndunum í stað þess að styrkja þau og tryggja bandaríska viðveru í Þýsklandi og Evrópu til framtíðar.“

Ýmsir þingmenn úr flokki repúblikana, flokki Trumps, hafa einnig gagnrýnt afstöðu hans og áform, þeir vilja rækta tengslin við Þýskaland. „Á tímum þegar Bandaríkjamenn og evrópskir bandamenn þeirra verða að standa áfram saman hlið við hlið til að halda illum öflum í skefjum er það í samræmi við þjóðarhagsmuni okkar og einnig hagsmuni bandamanna okkar og samstarfsaðila að halda úti herafla í Þýskalandi,“ sagði repúblikaninn Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída, í júní 2020.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …