Home / Fréttir / Kvíði vegna ferðar Scholz til Kiev og Moskvu

Kvíði vegna ferðar Scholz til Kiev og Moskvu

Svona sér teiknari þýska vikuritsins Der Spiegel fyrir sér að stefnu Olafs Scholz Þýskalandskanslara sé best lýst.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari fer til Kiev mánudaginn 14. febrúar og þaðan til Moskvu þriðjudaginn 15. febrúar í því skyni að lægja öldur og minnka spennu vegna umsáturs Rússa um Úkraínu.

„Það er hlutverk okkar að koma í veg fyrir stríð í Evrópu með því að senda skýr skilaboð til Rússa um að hvers kyns hernaðarárás drægi mjög stóran dilk á eftir sér […] og um að við stöndum saman með bandamönnum okkar,“ sagði Scholz við efri deild þýska þingsins föstudaginn 11. febrúar.

Hann lagði jafnframt áherslu á að nota yrði öli tækifæri til viðræðna í því skyni að þoka málum til réttrar áttar.

Það jók enn á spennu gagnvart Úkraínu laugardaginn 12. febrúar að Rússar hófu flotaæfingar á Svartahafi. Þær snerust um að „verja“ Krímskaga sem Rússar tóku af Úkraínu í mars 2014.

Rússneska varnarmálaráðuneytið fullyrti einnig laugardaginn 12. febrúar að þann dag hefði rússneska Kyrrhafsflotanum tekist að hrekja bandarískan kafbát úr rússnesku yfirráðasvæði á Kyrrahafi. Bandaríska utanríkisráðuneytið sagði þessa fullyrðingu ósanna, bandaríski flotinn athafnaði sig ekki á yfirráðasvæði Rússa.

Hver eru áform Scholz?

Scholz hefur hvað eftir annað sagt að árás á Úkraínu yrði Rússum „dýrkeypt“. Stjórn hans hefur hins vegar neitað að láta Úkraínumönnum í té vopn. Þá hefur þýska stjórnin ekki heldur tekið opinberlega af skarið um hvaða refsiaðgerðir hún styður gegn Rússum. Fyrir þetta hefur hún sætt gagnrýni á heimavelli og erlendis. Spurt hefur verið hvort stjórnin standi í raun í lappirnar gagnvart Rússum.

Þegar Steffen Herbestreit, talsmaður Scholz, var spurður föstudaginn 11. febrúar hvort kanslarinn hefði eitthvað nýtt fram að færa í Kiev og Moskvu var svarið: „Afstaðan er sú sama og við höfum þegar kynnt“.

Fréttaskýrendur segja að afstaða Þjóðverja sé að hluta mótuð af þýskri árásarstefnu í tveimur heimsstyrjöldum á 20. öldinni. Vegna sögunnar séu margir þýskir forystumenn tregir til að grípa til vopna nema í algjörri neyð.

Hvað sem þessu líður er það mat sérfræðinga að nú skipti sköpum að Scholz leggi áherslu á að Þjóðverjar séu algjörlega samstiga bandamönnum sínum í Evrópu og Norður-Ameríku, einkum þegar Scholz hittir Vladimir Pútin.

Þótt Scholz hafi ekki sagt hreint út hvernig Rússum yrði refsað fyrir innrás í Úkraínu er ljóst að framtíð umdeildu gasleiðslunnar milli Rússlands og Þýskalands, Nord Stream 2, er í húfi. Joe Biden Bandaríkjaforseti segjr gasleiðsluna úr sögunni komi til innrásar.

„Þjóðverjar hafa ekki margt uppi í erminni fyrir utan að segja að þeir opni ekki fyrir Nord Stream 2, það er eina pólitíska vopn þeirra,“ segir Claudia Kemfert sem stjórnar deild orku-, flutninga- og umhverfismála í DIW-stofnuninni í Berlín, þýsku hagrannsóknastofnuninni.

Hún segir að Þjóðverjar séu næsta berskjaldaðir gagnvart þvingunaraðgerðum. Þeir hafi ekki mörg úrræði. „Við höfum skuldbundið okkur til að flytja inn gasið, ólíkt öðrum Evrópuþjóðum höfum við ekki stofnað til viðskipta við marga gasbirgja og við höfum dregið lappirnar í orkuskiptum. Okkur voru mjög mislagðar hendur og nú er komið að skuldadögunum,“ segir Kemfert.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …