Home / Fréttir / Kvartað til lögreglu gegn uppljóstrunum um Assange

Kvartað til lögreglu gegn uppljóstrunum um Assange

 

Julian Assange í lögreglubíl í London.
Julian Assange í lögreglubíl í London.

Blaðamaður sem reyndi að selja upplýsingar um Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, sem sagt er að hafi verið aflað með eftirlitsmyndavélum í sendiráði Ekvadors í London hefur verið yfirheyrður í Madrid. Þetta hafði fréttasíðan thelocal.es eftir heimildarmönnum innan spænsku löggæslunnar laugardaginn 4. maí.

Nokkrir Spánverjar segjast hafa undir höndum myndbönd og persónuleg skjöl frá Assange eftir dvöl hans í Ekvador-sendiráðinu í London. Heimildarmaður sem óskaði nafnleyndar sagði blaðamanninn hafa verið handtekinn og yfirheyrðan af dómara í Madrid. Síðan hefði honum verið sleppt en málið yrði tekið fyrir að nýju miðvikudaginn 8. maí.

Í fréttinni segir að núverandi aðalritstjóri WikiLeaks, Kristinn Hrafnsson, hafi kært málið til lögreglu. Heimildarmaðurinn gat ekki staðfest hvort aðrir hefðu verið teknir höndum eða sleppt.

Lögfræðingar Assange hafa einnig kvartað til dómara á Spáni vegna blaðamannsins og nokkurra annarra sem hafi reynt að kúga stofnanda WikiLeaks . Segja lögfræðingarnir að „njósnað“ hafi verið um Assange  í sendiráðinu.

Julian Assange var sjö ár í Ekvador-sendiráðinu í London til að komast undan að sæta framsali til Svíþjóðar þar sem hann sætti ákæru fyrir nauðgun. Breska lögreglan handtók Assange 11. apríl sl.

Miðvikudaginn 1. maí var Assange dæmdur í 50 vikna fangelsi fyrir að brjóta gegn fyrirmælum bresks dómara þegar hann leitaði hælis í sendiráðinu.

Spænskir fjölmiðlar segja að Spánverjum hafi einhvern veginn tekist að ná í myndbönd og einkaskjöl Assange í gegnum öryggiskerfið, þ. á m. myndavélar, í sendiráðinu í London.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …