Home / Fréttir / Kúvendig Þjóðverja í varnarmálum vegna innrásar Pútins

Kúvendig Þjóðverja í varnarmálum vegna innrásar Pútins

Olaf Scholz Þýskalndskanslari flytur sögulega ræðu sína 27. febrúar 2022.

Þýska sambandsþingið í Berlín kom saman til sögulegs fundar fyrir hádegi sunnudaginn 27. nóvember. Þar kynnti Olaf Scholz kanslari nýja róttæka stefnu Þýskalands í varnar- og öryggismálum sem andsvar við innrás Rússa í Úkraínu.

„Fimmtudaginn 24. febrúar 2022 urðu þáttaskil í sögu álfu okkar,“ sagði kanslarinn og síðan:

„Heimurinn verður ekki lengur eins og hann var fyrir þennan dag. Þetta snýst um hvort þola eigi að lögin séu brotin með valdi. Viljum við leyfa Pútin að færa tímann aftur til stórveldanna á 19. öld? Eða getum við safnað kröftum til að stöðva stríðsmenn eins og Pútin?“

Í ræðu sinni tilkynnti Scholz að Þjóðverjar mundu verja meira en 2% af vergri landsframleiðslu sinni, VLF, til varna sinna og fullnægja þannig skuldbindingum sínum gagnvart NATO.

Alþjóðabankinn telur að til þessa hafi Þjóðverjar varið um það bil 1,4% af VLF til varnarmála. Í ár ætlar ríkisstjórnin að auka útjöldin um 100 milljarða evra. Þá vill Scholz að ákvæði verði sett í stjórnarskrána um styrk heraflans.

Kanslarinn sagði þetta ekki aðeins snúast um að geta aðstoðað Úkraínumenn heldur snerist ákvörðunin einnig um eigið öryggi Þýskalands: „Við verðum að fjárfesta meira í öryggi lands okkar til að verja frelsi okkar og lýðræði.“

Skömmu áður en kanslarinn kynnti stefnubreytinguna sagði yfirmaður þýska hersins, Bundeswehr, að heraflinn væri mjög illa á sig kominn.

Þegar Þjóðverjar buðu Úkraínumönnum að aðstoða þá með 5.000 hjálmum vegna yfirvofandi innrásar Rússa sættu þeir napurlegri gagnrýni meðal annars frá sendiherra Úkraínu í Berlín. Hjálmarnir urðu táknrænir fyrir hikandi afstöðu þýsku stjórnarinnar vegna umsátursins um Úkraínu.

Þessi sami sendiherra Úkraínu var á áhorfendapalli í þingsalnum í Berlín þegar Olaf Scholz flutti sögulega ræðu sína. Hann stóð upp og fagnaði henni með lófataki.

Olaf Scholz lét ekki við það sitja að boða stóraukin útgjöld til varnarmála um helgina hann tók af skarið um að hverfa skyldi frá áratuga langri stefnu Þjóðverja í varnar- og utanríkismálum. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa Þjóðverjar ekki flutt vopn til átakasvæða.

Undanfarið hefur þýska ríkisstjórnin hvað eftir annað harðneitað að verða við óskum Úkraínumanna um að láta þeim í té vopn. Jafnframt hafa Þjóðverjar sætt gagnrýni fyrir að banna að þýsk vopn keypt af þriðja aðila séu send til Úkraínu.

Laugardaginn 26. febrúar leyfði þýska ríkisstjórnin ekki aðeins að bandamenn Þjóðverja létu Úkraínumönnum í té þýsk vopn – Þjóðverjar ætla sjálfur að senda 500 Stinger-flaugar og 1.000 varnarvopn gegn skriðdrekum úr þýskum vopnabúrum til Úkraínu.

„Þetta er eina svarið gegn árás Pútins,“ sagði Olaf Scholz í ræðu sinni.

Kanslarinn kallaði innrásina alltaf „stríð Pútins“. Hann lagði áherslu á að árásin væri aðeins til marks um drauma Pútins um „rússneskt heimsveldi“. Með áherslunni á Pútin vill Scholz leggja sig fram um að móðga ekki alla Rússa. Miklu skipti að stuðla að sáttum Þjóðverja og Rússa. Auk þess tæki núverandi ástand mjög á Rússa og Úkraínumenn búsetta í Þýskalandi.

Fréttaskýrendur minna á að fyrir aðeins einni viku hefði verið óhugsandi að Þjóðverjar flyttu vopn til Úkraínu eða stórefldu útgöld sín til varnarmála. Þýska stjórnin hefur sætt þungri gagnrýni – bæði í þýskum fjölmiðlum og meðal erlendra bandamanna – fyrir að sýna Pútin linkind.

Þetta mat á þýsku stjórninni breyttist þriðjudaginn 22. febrúar þegar Olaf Scholz tilkynnti að ekki yrði veitt leyfi fyrir starfrækslu Nord Stream 2 gasleiðslunnar sem er tilbúinn til notkunar á botni Eystrasalts frá Rússlandi til Þýskalands.

Þar til Scholz setti bann við gasleiðslunni sagði hann að þar væri um hreint einkaframtak að ræða og ætti ekki að tengja það stórvelda pólitík. Innrás Pútins í Úkraínu varð til þess að Scholz snerist hugur og gasleiðslan kann að liggja ónýtt um óráðna framtíð.

Það eru fleiri en Rússar sem tapa fé á tómu gasleiðslunni. Þetta bitnar einnig á Þjóðverjum sjálfum sem nota rússneskt gas í iðnaði og á heimilum sínum.

Í þessu efni breytti Olaf Scholz einnig um stefnu og viðurkenndi tengslin milli stefnunnar í orkumálum annars vegar og öryggismálum hins vegar.

„Við munum breyta um stefnu til að draga úr því að við eigum of mikið undir innflutningi frá einum orkuseljanda,“ sagði Olaf Scholz og boðaði að hraðað yrði breytingum yfir til endurnýjanlega orkugjafa.

Að lokinni ræðu kanslarans tók Christian Lindner fjármálaráðherra af skarið með orðunum:

„Endurnýjanleg orka er frelsisorka.·“

Nú ætla Þjóðverjar að gera hafnaraðstöðu fyrir tvær móttökustöðvar fyrir fljótandi jarðgas til að þurfa ekki að treysta á rússneskt gas gegnum núverandi leiðslur.

 

Heimild: Jyllands-Posten.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …