Home / Fréttir / Kushner, tengdasonur Trumps, sviptur öryggisvottun

Kushner, tengdasonur Trumps, sviptur öryggisvottun

Donald Trump og Jared Kushner.
Donald Trump og Jared Kushner.

Jared Kushner, tengdasyni og aðalráðgjafa Donalds Trumps Bandsríkjaforseta, er bannaður aðgangur að algjörum trúnaðarskjölum innan forsetaembættisins. Þriðjudaginn 27. febrúar bárust fréttir um að öryggisvottun hans hefði verið lækkuð frá aðgangi að algjöru trúnaðarstigi í almennt trúnaðarstig.

Ákvörðunini leiðir til þess að Kushner (37 ára) hefur ekki lengur aðgang (Top Secret/SCI-stig) að leyndarskýrslu sem Bandaríkjaforseta er send daglega. Þar er að finna greiningu leyniþjónustustofnana, upplýsingar um leynilegar aðgerðir CIA og upplýsingar sem eru reistar á viðkvæmustu heimildarmönnum Bandaríkjamanna eða bandamanna þeirra.

Fram til þessa hefur Kushner haft öryggisvottun og aðgang til bráðabirgða að viðkvæmum upplýsingum.

Fréttaskýrendur og álitsgjafar segja að með því að lækka öryggisvottun Kushners þrengist svigrúm hans til að vinna að þeim málum sem forsetinn hefur falið honum, má þar nefna friðargerð í deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Það er því talið að afskipti hans af málum sem krefjast víðtækrar öryggisvottunar séu úr sögunni þótt forsetinn sjálfur geti miðlað til hans upplýsingum.

Sagt var frá því í Washington Post eftir að þrengt hafði verið að Kushner að í einkasamtölum við fulltrúa fjögurra ríkja: Ísraels, Mexíkós, Kína og Sameinuðu furstadæmanna hefði komið fram að þeir töldu unnt að ná tökum á Kushner vegna fjárhagserfiðleika hans, viðskiptahagsmuna og skorts á reynslu í alþjóðasamskiptum.

Kushner gegndi lykilhlutverki í kosningabaráttu Trumps og eftir að hann náði kjöri hefur Kushner haft mikil völd á bakvið tjöldin.

Fyrir nokkru beindist athygli að því að við forsetaembættið starfaði Rob Porter sem tvær fyrrverandi eiginkonur sökuðu um heimilisofbeldi. Vegna ásakananna fékk Porter aldrei fullnaðar öryggisvottun og var að lokum rekinn eftir að ofbeldismálin komust í hámæli.

John Kelly, liðsstjóri Trumps, sendi frá sér tilkynningu eftir brottrekstur Porters um að þeir starfsmenn forsetaembættisins sem hefðu öryggisvottun til bráðabirgða yrðu að hafa fengið fullnaðarvottun föstudaginn 23. febrúar 2018 annars yrði þeim bannað að kynna sér efni algjörra trúnaðarskjala.

Þegar Sarah Sanders, blaðafulltrúi forsetaembættisins, var spurð um hvert yrði hlutskipti Kushners eftir þessa breytingu á höfum hans í Hvíta  húsinu svaraði hún að Kushner mundi halda áfram að vinna að mikilvæg störf sem hann hefði sinnt frá upphafi stjórnar Trumps.

Abbe D. Lowell, lögfræðingur Kushners, sagði við AP-fréttastofuna að starf Ksuhbers breyttist ekki neitt við breytingu á öryggisvottun hans. Lögfræðingurinn sagði að rúmlega 10 starfsmenn á svipuðu stigi og Kushner biðu enn eftir öryggisvottun sinni. Það væri ekki óalgengt að athuganir á vegum alríkislögreglunnar tækju langan tíma við stjórnarskipti, engar athugasemdir hefðu verið gerðar vegna umsóknar Kushners.

Í bandarískum blöðum segir að innan alríkislögreglunnar, FBI, sé að því stefnt að ljúka öryggisvottuninni fyrir starfsmenn Trumps innan mánaðar. Allt er á huldu um hvort Kushner fái nokkru sinni leyfi til að kynna sér efni daglegu leyniskýrslunnar til forsetans.

Heimild: Politico, DW

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …