Home / Fréttir / Krossar skulu hanga í anddyri opinberra bygginga í Bæjarlandi

Krossar skulu hanga í anddyri opinberra bygginga í Bæjarlandi

 

Markus Söder, forsætisráðherra Bæjarlands, hengdi yupp kross í ráðuneyti sínu.
Markus Söder, forsætisráðherra Bæjarlands, hengdi upp kross í ráðuneyti sínu.

Frá og með 1. júní 2018 skal kross hanga í anddyri opinberra bygginga í Bæjarlandi, syðsta sambandslandi Þýskalands. Þetta á til dæmis við um húsnæði skattstofunnar, lögreglustöðvar eða dómshús.

Óljóst er hvort gripið verði til refsiúrræða ef ekki er farið að þessum fyrirmælum. Þau eru þessi: „Setja ber vel sýnilegan kross í anddyri sérhverrar þjónustubyggingar til að minna á söguleg og menningarleg áhrif á Bæjarland.“

Forsætisráðherra stjórnarinnar í Bæjarlandi, Markus Söder, kynnti nýju regluna í lok apríl 2018. Hann áréttaði hana á áhrifamikinn hátt með því hengja upp kross í forsætisráðuneyti Bæjarlands í ljósum fjölmiðlanna.

Heitar umræður hafa orðið um regluna í Þýskalandi. Hún hefur sætt gagnrýni námsmanna en einnig frá forráðamönnum mótmælendakirkjunnar og biskuparáðstefnu katólsku kirkjunnar í Þýskalandi. Telja gagnrýnendur að með þessu sé krossinn misnotaður.

Sumum finnst óljóst hvaða kröfur felast í reglunni. Talsmaður innanríkisráðuneytis Bæjarlands sagði það vera í höndum einstakra stofnana og forráðamanna sveitarfélaga að taka ákvarðanir í samræmi við efni reglunnar.

Engin krafa er gerð um stærð krossa, þeir geta verið mjög litlir að uppfylltu skilyrðinu um að þeir séu sýnilegir í anddyri.

Í bókasafni Bæjarlands í München völdu stjórnendur naumhyggju við framkvæmd nýju reglunnar. Fíngerður, silfurlitaður krossinn hangir á vegg að baki afgreiðsluborðs.

Peter Schnitzlein, talsmaður bókasafnsins, segir að margir fari um þetta svæði þótt það sé dálítið frá aðalanddyri bókasafnsins.

Þá hefur einnig vafist fyrir ýmsum hvernig túlka beri þýska orðið Dienstgebäude, þjónustubygging. Almennt er það talið ná til allra bygginga sem hýsa stofnanir sem falla undir ríkisstjórn Bæjarlands.

Spurning hefur vaknað um hvort krafan um krossana nái til safna, leikhúsa, skóla og háskóla. Ráðamenn listasafna og annarra menningarstofnana í Bæjarlandi hafa lýst andstöðu við að hengja krossa í anddyri bygginga sinna, það brjóti í bága við hlutverk þeirra.

Af hálfu ráðuneytis lista og vísinda í Bæjarlandi er sagt að skyldan til að hengja upp krossa nái til allra stofnana á sviði ráðuneytisins. Skyldan nái þó ekki til leikhúsa, safna, háskóla og annarra æðri menntastofnana þótt mælt sé með því að þau virði regluna.

Andstæðingar nýju reglunnar um krossa draga í efa að hún samrýmist stjórnarskrárákvæðum um trúarlegt hlutleysi og aðskilnað ríkis og kirkju.

David Farago, félagi í Giordano Bruno samtökum húmanista, skipulagði mótmæli gegn nýju reglunni í München. Hann segir að Söder forsætisráðherra sé ekki að þessu vegna krossins eða kristinnar trúar heldur vegna kosninganna sem verða í haust.

Söder og stuðingsmenn segja á hinn bóginn að þetta snúist um að minna á inntak þess sem standi að baki Bæjarlandi.

Flokkur Söders, Kristilegi sósíalflokkurinn (CSU) er systurflokkur Kristilega demókrataflokksin(CDU) flokks Angelu Merkel kanslara. Hann hefur áratugum saman haft tögl og hagldir í stjórn Bæjarlands og býr sig nú undir að takast á við flokk hægra megin við sig, Alternative für Deutschland (AfD) í kosningunum í Bæjarlandi 14. október 2018.

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …