
Þau sögulegu þáttaskil urðu mánudaginn 2. apríl að þá birtust ummæli höfð eftir Mohammed bin Salman (32 ára), krónprins Sádí-Arabíu og raunverulegum stjórnanda landsinds, um að Írsaelar ættu „rétt“ til lands við hlið Palestínumanna.
Ummælin birtust í viðtali við krónprinsinn í bandaríska tímaritinu The Atlantic. Mohammad bin Salman var spurður: „Á þjóð gyðinga rétt á þjóðríki á að minnsta kosti hluta búsetulands forfeðra sinna?“ bin Salman svaraði: „Ég tel að Palestínumenn og Ísraelar eigi rétt til eigin lands.
Frá árinu 2002 hafa stjórnvöld í Sádí-Arabíu stutt tveggja ríkja lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna. Salman er hins vegar fyrsti forystumaður Sáda til að viðurkenna afdráttarlaust að Ísraelar eigi rétt til einhvers lands á svæðinu.
Í viðtalinu lýsti krónprinsinn einnig þeirri skoðin að nást yrði friðarsamningur milli Palestínumanna og Ísraela til að tryggja stöðugleika fyrir alla.
Þýska fréttastofan DW sagði þriðjudaginn 3. apríl að vinafélag Ísraels í Þýskalandin fagnaði „mjög skynsamlegri afstöðu“ krónprinsins. „Ísraelar eignuðust að sjálfsögðu sterkan samstarfsaðila með Sádí-Arabíu við hlið sér sé þetta í raun almennt stjórnmálaviðhorf í landinu en ekki aðeins skoðun krónprinsins,“ sagði Hellmut Königshaus, forseti vinafélagsins, við Deutschlandfunk útvarpsstöðina. Königshaus minnti á að krónsprinsinn hefði stigið skrefi lengra en Sádar almennt.
Það er ekkert opinbert stjórnmálasamband milli Sádí-Arabíu og Ísraels og Sádar hafa hingað til sett sem skilyrði fyrir eðlilegum samskiptum ríkjanna að Ísraelar falli frá kröfum til lands Palestínumanna sem her Ísraels lagði undir sig í sex daga stríðinu milli araba og Ísraela árið 1967.
Ummæli krónprinsins núna eru síðasta dæmið um að stjórnmálatengsl milli stjórnvalda í Sádí-Arabíu og Ísraels séu að batna. Þar ræður mestu sameiginleg andstaða þeirra við stefnu klerkastjórnarinnar í Íran.
Í mars 2018 opnuðu Sádar í fyrsta sinn lofthelgi sína fyrir ferðir farþega- og flutningaflugvéla til Ísraels. Í nóvember 2017 staðfesti ísraelskur ráðherra sannleiksgildi orðróms um leynileg samskipti landanna þegar hann viðurkenndi leynilegt samband sitt við menn í Riyadh, höfuðborg Sádí-Arabíu.
Í viðtalinu við The Atlantic sagðist bin Salman „ekki andvígur því af trúarlegum ástæðum“ að Ísraelar og Palestínumenn byggju hlið við hlið til frambúðar. Hann tók þó fram að ekki fyndist nein lausn á ágreiningi við Ísraela nema tryggð væri vernd helsta helgistaðar múslima í Jerúsalem, Al-Aqsa moskunnar.