Home / Fréttir / Kröfum Rússa um nýja skipan öryggismála hafnað

Kröfum Rússa um nýja skipan öryggismála hafnað

Wendy Sherman og Sergei Ryabkov ( Genf 10. janúar 2022.

Vara-utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands ræddu saman í tæpar átta klukkustundir mánudaginn 10. janúar í Genf. Fjölmiðlaáhugi á viðræðunum snerist um hvort þar hefði tekist að lægja öldur í kringum Úkraínu og minnka hættu á að Rússar beittu þar herafli til að ná fram vilja sínum. Undanfarið hafa um 100.000 rússneskir hermenn tekið sér stöðu, gráir fyrir járnum, við landamæri Úkraínu.

Samhliða því sem litið er á viðræðurnar í þessu ljósi ber einnig að minnast þess að þær eru liður í því sem á ensku er nefnt Strategic Security Dialogue milli ríkjanna. Þær viðræður snúa að afvopnunarmálum og hófust þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti og Valdimir Pútin Rússlandsforseti hittust á fundi í Genf í júní 2021. Áður höfðu utanríkisráðherrar landanna, Antony Blinken og Seigeij Lavrov, hist á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Hörpu, Reykjavík, í maí 2021og stigið fyrsta skrefið til leiðtogafundarins.

Sergeij Rjabkov, vara-utanríkisráðherra Rússa, sagði eftir fundinn 10. janúar að viðræðurnar hefðu verið „fagmannlegar og djúpar“ en hins vegar hefði ekki tekist að aftengja spennuna vegna Úkraínu. Rússar vilja ekki gera það nema Bandaríkjastjórn og NATO fallist á nýskipan evrópskra öryggismála, að Rússar ráði hvort NATO stækki lengra til austurs og þeir ráði einnig vopnakerfum NATO í nágrenni við landamæri sín. Bandaríkjastjórn og NATO hafna þessum kröfum.

„Okkur fannst sem Bandaríkjamenn tækju tillögum Rússa af mjög mikilli alvöru,“ sagði Rjabkov en við hlið hans á fundinum var Alexander Fomin vara-varnarmálaráðherra. Wendy Sherman vara-utanríkisráðherra fór fyrir sendinefnd Bandaríkjanna.

Wendy Sherman sagði eftir fundinn:

„Við stóðum fast gegn öllum tillögum um öryggismál sem verða einfaldlega aldrei að neinu að mati Bandaríkjamanna. Við munum aldrei leyfa neinum að skella í lás hjá NATO, stefnan um opnar-dyr bandalagsins hefur ávallt verið kjarnaþáttur þess.

Við munum ekki hafa að engu tvíhliða samvinnu við fullvalda ríki sem vilja starfa með Bandaríkjunum og við munum ekki taka ákvarðanir um Úkraínu án Úkraínumanna, um Evrópu án Evrópu og um NATO án NATO.“

Miðvikudaginn 12. janúar verður fundur í samstarfsráði Rússa og NATO í Brussel. Fimmtudaginn 13. janúar verður fundur í ráði Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vínarborg.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …