Home / Fréttir / Kristilegir demókratar (CDU) velja sér nýja forystu

Kristilegir demókratar (CDU) velja sér nýja forystu

Angela Merkel og Armin Laschet.

Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel, fráfarandi kanslara, kemur saman fyrir árslok til að velja sér nýja forystu. Paul Ziemiak, framkvæmdastjóri flokksins, skýrði frá þessu mánudaginn 10. október. Er þetta fyrsta skref flokksins til að styrkja stöðu sína að nýju eftir að hann fékk hroðalega útreið í sambandsþingkosningunum 26. september 2021.

Eftir 16 ára stjórnarforystu með Angelu Merkel sem Þýskalandskanslara glíma kristilegri í CDU nú við afleiðingar mesta fylgistaps síns frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Armin Laschet sem kjörinn var flokksleiðtogi eftir að Merkel ákvað að draga sig í hlé tilkynnti í liðinni viku að hann segði sig frá flokksforystunni.

Frá því verður skýrt í byrjun nóvember hvenær flokksþingið til að velja nýja forystusveit verður haldið. Á fundi forystumanna flokksins 10. október var ákveðið að valin yrði ný framkvæmdastjórn hans í heild á flokksþinginu.

Í blaðinu Bild segir að flokkurinn hafi bókað fundarstað með fyrirvara í Dresden dagana 6. til 13. desember.

Laschet sem er forsætisráðherra í fjölmennasta þýska sambandslandinu, Nordrhein Westfalen var kjörinn leiðtogi CDU í janúar 2021.

Fyrstu mánuðina eftir að hafa verið valinn í forystusætið bentu kannanir til að hann nyti mestra vinsælda sem næsti kanslari Þýskalands. Fylgi við hann dvínaði þó smátt og smátt vegna ýmissa axarskafta hans.

Þegar hann fór á flóðasvæði þar sem tugir manna týndu lífi var tekin mynd af honum hlæjandi á meðan Þýskalandsforseti minntist látinna og vottaði þeim samúð sem áttu um sárt að binda.

Á lokadögum kosningabaráttunnar þegar ljóst varð hvert stefndi reyndi Angela Merkel að snúa vörn í sókn með því að hvetja kjósendur til að leggja Laschet lið en kjósendur létu hvatningarorð hennar sem vind um eyru þjóta.

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …