Home / Fréttir / Krímbúar búa við vaxandi eldneytisskort

Krímbúar búa við vaxandi eldneytisskort

Lífæð Krímskaga undir stjórn Rússa, Krímbrúin.

Eldsneytisskortur blasir við Krímverjum eftir að eina brúin sem tengir þá við Rússland varð fyrir skemmdum vegna sprengingar 17. júlí. Krímbrúin yfir Kertsj-sund tengir Krímskaga sem Rússar hernámu árið 2014 við Rússland.

Einn helsti dreifingaraðili eldsneytis á Krímskaga sendi viðskiptavinum sínum sms-boð í fyrri viku og hvatti þá til að birgja sig upp þar sem búast mætti við skorti.

Í Rússlandi er unnið eitt mesta magn af hráolíu í heiminum. Frá 2018 hafa Rússar flutt olíu til skagans um Krímbrúna. Eftir að Úkraínumenn réðust á Krímbrúna öðru sinni 17. júlí hefur ekki verið unnt að flytja olíu með járnbrautarlestum um brúna. Nú er hún aðeins flutt í dagsbirtu í hægfara olíuprömmum.

Heimamenn á Krím kvarta undan eldsneytisskorti á samfélagsmiðlum.

„Nú er ekki unnt að fá neitt 95 [oktana bensín] þriðja daginn í röð, einkum hjá Atan [bensínstöðinni],“ sagði íbúi í hafnarbænum Sevastopol á rússnesku síðunni Vkontake.

Umboðsstjóri Rússa í héraðinu, Mikhail Razvozhaev, reyndi að róa íbúana á Krím eftir árásina 17. júlí með því að fullyrða að það yrðu „engar tafir“ og þeir þyrftu ekki að hamstra.

Í fyrri viku spurði einn Krímbúi á Telegram-síðu umboðsstjórans: „Misha, hvað með bensínið? Flytja tankskipin [rússnesku] aðeins til útlanda?“ Uppnefnið Misha sýnir reiði spyrjandans að sögn fréttamanns RFE/RL.

Hann segir viðmælanda sinn á Krím hafa sagt að finna mætti bensín væri leitað þótt ekki sé það á bensínstöðvum.

Nadezhda Golovanova í Sevastopol sagði á samfélagsmiðli borgarinnar að það þyrfti skömmtunarmiða til að fá bensín og það minnti sig á ástandið fyrir 35 árum þegar ekki hefði verið unnt að kaupa pylsu án þess að framvísa miða.

Úkraínumenn hafa leitast við að þrengja að Krímskaga í von um að skapa Rússum vandræði sér í hag. Í þessu skyni hafa þeir beitt langdrægum vestrænum vopnum og heimasmíðuðum, þar á meðal drónum.

Árásir eru ekki aðeins gerðar á Krímbrúna milli Rússlands og Krímskaga heldur ræðst Úkraínuher nú á tvær brýr sem tengja skagann og hernumin svæði Rússa í Donetsk, austurhluta Úkraínu.

Því er spáð að almennir borgarar finni fyrir vaxandi skorti á Krímskaga á næstunni því að rússnesk stjórnvöld leggi megináherslu á að koma nauðþurftum og eldsneyti til hermanna sinna en láti aðra sitja á hakanum.

Telur sérfróður heimildarmaður RFE/RL að þetta kunni að ýta undir ólgu meðal almennings og auka þrýsting á ráðamenn í Moskvu.

„Versni efnahagsástandið umtalsvert minnkar stuðningur almennings við stríðið einnig umtalsvert. Þeim lengur sem þetta varir og versnar því erfiðara verður að skýra fyrir fólki fyrir hverju Rússar berjist, til hvers stofnað var til þessa stríðs.“

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …