Home / Fréttir / Krímbrúín, nýlendutákn Pútíns, skotmark í annað sinn

Krímbrúín, nýlendutákn Pútíns, skotmark í annað sinn

Þarna má sjá tjónið á brúnni milli Rússlands og Krímskaga að morgni 17. júlí 2023.

Hjón frá rússneska Belgorod-héraðinu fórust eftir að í annað sinn var ráðist á brúna sem tengir Krímskaga við Rússland (Kertsj-brúna). Dóttir þeirra á táningsaldri slapp lifandi. Frá brúnni mátti heyra nokkrar sprengingar klukkan 3 að staðartíma aðfararnótt mánudagsins 17. júlí. Talið er að tvö gólf á um 16 km langri brúnni hafi eyðilagst.

Forseti þingsins á Krím, Vladimir Konstatinov, sem skipaður er af hernámsstjórn Rússa, sagði „terroristastjórnina í Kyív“ bera ábyrgð á verknaðinum. Hann sagði á Telegram-samfélagsmiðlinum að Úkraínumenn hefðu gerst sekir um „nýjan glæp“, þeir hefðu átt að vita að bílaumferð um brúna væri „eingöngu í þágu almennra borgara“.

Herstjórn Úkraínu heldur fram þeirri skoðun að brúin sé lögmætt hernaðarlegt skotmark.

Úkraínskir fjölmiðlar leyna því ekki að floti og öryggissveitir Úkraínu séu að baki sprengingunum og að drónar hafi verið notaðir til að granda brúnni. Í dagblaðinu RBK-Úkraína er vitnað í ónafngreindan heimildarmann innan öryggislögreglunnar sem segir: „Ráðist var á brúna með drónum. Það var erfitt að komast að brúnni en það tókst þó að lokum.“

Eins og venjulega hafa úkraínsk stjórnvöld þó ekki enn sagt neitt um atvikið eða ábyrgð sína. Á samfélagsmiðlum er dreift myndskeiði sem sýnir það sem gerðist strax eftir að tvær sprengjur sprungu á brúnni, reykur stígur til himins og lýsing hverfur á hluta brúarinnar. Myndskeið sem tekin voru eftir að birti að degi sýna á hinn bóginn rof á brúnni sjálfri eftir sprengingarnar.

Umferð um brúna var strax stöðvuð af yfirvöldum á Krímskaga og öllum lestarferðum um hana var frestað. Þá varð einnig nokkurra klukkustunda hlé á ferjuferðum milli Krímskaga og Rússlands.

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, fullyrti, án þess að leggja nokkuð fram máli sínu til staðfestingar, að Úkraínumenn hefðu ráðist á brúna með aðstoð leyniþjónustu Bandaríkjamanna og Breta.

Ekki liðu nema fáeinar klukkustundir frá því að brúin sprakk þar til Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, tilkynnti að Rússar hefðu slitið samkomulagi um kornsölu sem var reist á því að Úkraínumenn gætu hættulaust flutt út korn frá höfnum sínum við Svartahaf. Tyrkir og stjórnendur Sameinuðu þjóðanna unnu að gerð þessa samkomulags í fyrra. Peskov fullyrti að ákvörðun Rússa um að slíta samkomulaginu ætti ekkert skylt við atburði næturinnar.

Peskov sagði að um „algjörlega aðgrind mál“ væri að ræða. Rússlandsforseti hefði „jafnvel fyrir hryðjuverkaárásinia“ boðað slit samkomulagsins vegna þess að ákveðin skilyrði við að framlengja það hefðu verið hundsuð.

Í október 2022 var 250 metra langur hluti brúarinnar, fyrir bifreiðar og járnbrautir, sprengdur í loft upp. Þá var verkið unnið með því að aka borgaralegri flutningabifreið með sprengiefni inn á brúna. Óstaðfest er að Úkraínumenn hafi staðið að baki árásinni í október.

Eftir fyrri árásina tók fram í febrúar 2023 að gera við brúna. Rússneskum ferðamönnum er lítt að skapi hve allt öryggiseftirlit við brúna og vegna umferðar um hana jókst eftir að hún var enduropnuð, hafa myndast margra klukkustunda biðraðir við brúna.

Að þessu sinni virðist brúin minna skemmd en í október, lestarteinar hennar eru að minnsta kosti enn nothæfir. Árásin er þó eins og áður meiri háttar áfall fyrir Rússa og hæfni þeirra til að tryggja öryggi brúarinnar. Þá er líklegt að erfiðara verði fyrir þá að sjá herafla sínum á Krímskaga fyrir vopnum og vistum.

Á meðan bílaumferð er lokuð um brúna vilja þeir sem ætla akandi frá Rússlandi til Krímskaga að fara um hernumdu svæði Rússa í austurhluta Úkraínu, Donetsk og Luhansk. Þar eru þeir í meiri hættu en ella væri vegna nálægðar vegarins við víglínuna. Stjórnvöld á Krím hafa gefið í skyn að það kunni að taka um einn mánuð að gera brúna ökufæra að nýju.

Táknrænt gildi brúarinnar er mikið bæði fyrir Vladimir Pútin Rússlandsforseta og Úkraínumenn. Forsetinn lítur á brúna sem staðfestingu á hernámi sínu á Krímskaga og fyrir fimm árum varð hann fyrstur manna til að aka yfir brúna eftir að hún var opnuð, var hann á risastórum trukki. Einmitt vegna þessarar tengingar við Pútin og vald hans er Úkraínumönnum meira í mun en ella að eyðileggja brúna. Hyrfi hún með öllu yrði eitt helsta nýlendutákn hernáms Pútíns eyðilagt.

 

Heimild: Spectator.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …