Home / Fréttir / Krímbrúin í lamasessi og Rússar í áfalli

Krímbrúin í lamasessi og Rússar í áfalli

Krimbrúin er neðst í horninu hægra megin.

Krímbrúin yfir Kertjssund, sem tengir Azov haf og Svarta haf, er 19 km löng rússnesk samgönguæð frá Krímskaga til Rússlands. Vladimir Pútin Rússlandsforseti opnaði brúna formlega við hátíðlega athöfn og mikinn fögnuð árið 2018. Nú er brúin táknmynd þess hve Rússum vegnar illa í stríðinu við Úkraínumenn.

Sprengjan sem grandaði brúnni varð um klukkan fimm að morgni á staðartíma laugardaginn 8. október. Við hana hrundu akreinar á annarri hlið brúarinnar. Flutningalest með eldsneyti var á lestarteinum brúarinnar, samhliða akreinum hennar, þegar eldur braust út í lestinni. Þrír menn týndu lífi vegna sprengingarinnar og eldsins.

Síðdegis laugardaginn 8. október var skýrt frá því að brúin hefði verið opnuð fyrir léttri umferð og einnig væri unnt að nota lestarteinana.

Litið var á brúargerðina sem lokapunktinn í innlimun Krímskaga í Rússland, staðfestingu þess að skaginn væri orðinn hluti Rússlands. Þegar fréttin um sprenginguna og eldinn á brúnni barst til Moskvu kom hún eins og reiðarslag.

Rússneski þingmaðurinn Leonid Slutskij, formaður utanríkismálanefndar Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins sagði þetta ekki slys heldur dæmi um hryðjuverk á vegum óvinveitts ríkis.

Sergej Markov sem heldur fram málstað Kremlverja á samfélagssíðunni Telegram sagði: „Hryðjuverkaárásin á Krímbrúna sýnir að Bandaríkjamenn og úkraínskar strengjabrúður þeirra færa rauðu línuna lengra og lengra. Eiga Rússar eitthvert svar?“

Úkraínumenn taka ekki á sig beina ábyrgð vegna þess sem gerðist á brúnni en í Kyív fóru menn ekki leynt með ánægju sína. „Krímbrúin er upphafið. Allt á að eyðileggja sem er ólöglegt; öllu sem er stolið skal skilað aftur til Úkraínu,“ skrifaði Mykhailo Podoljak, ráðgjafi Úkraínuforseta, á Twitter.

Brúin tengir Tamanskaga í Krasnodar héraði í Suður-Rússlandi við bæinn Kertj á austur tanga Krímskaga. Hún er sögð lengsta brú í Evrópu. Smíði hennar hófst árið 2015 og í maí 2018 var unnt að aka bílum um hann. Pútin ók sjálfur fyrsta bílnum yfir brúna skömmu áður en heimsmeistaramótið í knattspyrnu hófst í Rússlandi árið 2018. Járnbrautarbrúin var opnuð 2019.

Um brúarsmíðina var samið án útboðs við Arkadij Rotenberg, æskuvin Pútins frá St. Pétursborg. Áður höfðu verkfræðingar nazista og sovéskra yfirvalda gert misheppnaðar tilraunir til að hanna brýr yfir sundið.

Þar til brúin kom til sögunnar sigldu ferjur með bifreiðar og önnur farartæki yfir sundið. Laugardaginn 8. október var tilkynnt að ferjusiglingar hæfust að nýju eins fljótt og verða mætti.

Frá upphafi stríðsins hafa Rússar ráðið yfir suðurströnd Úkraínu frá rússnesku landamærunum að Kherson svæðinu sem liggur að Krímskaga. Eftir þessari leið geta Rússar flutt birgðir og vopn landveg frá Rússlandi til skagans.

Her Úkraínu sækir nú inn á Kherson svæðið og hefur frumkvæði í hernaðarátökunum á vígvellinum í suðri. Vilji Rússar auka viðnám sitt þar verða þeir að flytja hermenn frá austurvígstöðvunum í Donbas héraði suður á bóginn.

Sé Krímbrúin illa löskuð og lengi þrengir enn að Rússum í suðurhluta Úkraínu.

Frá því að stríðið hófst 24. febrúar 2022 hefur ekkert almennt farþegaflug verið til Krímskaga. Þetta hefur haft áhrif á efnahag fólks á skaganum þar sem ferðaþjónusta er mikilvlæg atvinnugrein.

Rússneskir fjölmiðlar segja að um 4 milljónir ferðamanna hafi heimsótt skagann í ár, um helmingur þess fjölda sem fer þangað til að sóla sig venjulega. Í ágúst greip mikil hræðsla um sig meðal ferðamanna á Krím þegar ráðist var á rússneska flugherstöð skammt fyrir norðan hafnarborgina Sevastopol, heimahöfn rússneska Svartahafsflotans.

Um 2,4 milljónir manna búa á Krímskaga. Nú þegar aðfangaleiðir þangað eru lamaðar óttast margir að mjög þrengist í búi fólks á skaganum. Strax laugardaginn 8. október bárust fréttir um biðraðir við bensínstöðvar þar. Þá boðaði leppstjórn Rússa þar að gripið yrði til skömmtunar á matvælum og ýmsum öðrum nauðsynjavörum.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …