Home / Fréttir / Krím-tatarar sæta vaxandi harðræði af hálfu Rússa

Krím-tatarar sæta vaxandi harðræði af hálfu Rússa

Tatarar vilja að menning sín og hefðir njóti viðurkenningar.
Tatarar vilja að menning sín og hefðir njóti viðurkenningar.

Vladimír Pútin Rússlandsforseti hefur bent Tatörum, minnihlutahópi á Krímskaga, á að óska ekki eftir að fá sérstöðu sína viðurkennda innan samfélagsins á skaganum sem Rússar innlimuðu í óþökk Úkraínustjórnar í mars 2014.

Tatarar eru múslímar og mynda um tíunda hluta íbúa á Krím. Þeir voru almennt andvígir valdatöku Rússa á skaganum á síðasta ári. Í minni þeirra er harðræðið sem þeir máttu þola á tíma Jósefs Stalíns, sovéska einræðisherrans, sem flutti meginþorra þeirra nauðugan til Síberíu í síðari heimsstyrjöldinni. Á þá hefur verið þrýst af nýjum stjórnvöldum eftir innlimunina og þess krafist að þeir sætti sig við nýja stjórnendur og stjórnarhætti.

Vladimír Pútín fór í þriggja daga ferð til Krím í vikunni. Mánudaginn 17. ágúst hitti hann fulltrúa ýmissa minnihlutahópa, þar á meðal Tatara, í glæsihöll í þorpinu Opolznevoje.

„Innbyrðis samskipti fólks af ólíku þjóðerni eru viðkvæmtt mál,“ sagði Pútín við fulltrúana, „Í mínum huga er einstaklega hættulegt ef einhverjir  velta fyrir sér einhvers konar sérréttindum fyrir sérstakan þjóðernishóp.“

Pútín gaf til kynna að erlend ríki veittu aðgerðasinnum í þágu aukinna réttinda fjárstuðning í því skyni að „grafa undan stöðunni“. Þetta væri gert með því að mikla fyrir sér vanda Krím-tatara, þriðja stærsta þjóðernishóps á Krím á eftir Rússum og Úkraínumönnum, Þetta yrði ekki liðið af rússneskum stjórnvöldum. Pútín sagði:

„Þið vitið alveg um hverja ég er að ræða. Til er hópur fólks sem lítur á sig sem atvinnumenn í réttindabaráttu. Það vill fá erlenda styrki og hrós frá útlöndum auk þess að ná því sem að er stefnt þar á meðal stjórnmálamarkmiðum.

Krím er í raun spegill hins fjölþjóðernislega Rússlands. Hér eins og hvarvetna annars staðar í Rússlandi verðum við að leggja okkur í framkróka um og hafa stöðugt auga með leiðum til að stuðla að meiri friði og jafnvægi, tengja saman áherslur ríkisvaldsins og almennra borgara. Þess vegna tel ég að þessi fundur með ykkur sé afar mikilvægur.“

Öryggissamvinnustofnun Evrópu (ÖSE), Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið og Tyrkir hafa gagnrýnt meðferð Rússa á Tatörum. Þeir eru tortryggnir í garð ráðamanna í Moskvu vegna minningarinnar um brottflutning forfeðra sinna og frænda árið 1944. Margir týndu lífi vegna þeirrar framgöngu Rússa. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 sneri mikill fjöldi Tatara aftur til Krímskaga og innan Úkraínu fengu þeir að endurvekja menningarhefðir sínar.

Eftir innlimunina í mars 2014 hafa rússneskar öryggissveitir gert áhlaup á, Mejlis, helsta þing Tatara á Krím og svipt það húsakynnum sínum. Rússar hafa einnig skrúfað fyrir Tatara-sjónvarpsstöðina, ATR.

Óstaðfestar sögusagnir herma að nokkrir virkir aðgerðasinnar Tatara hafi verið drepnir, lamdir eða fari huldu höfði. Tveimur helstu forystumönnum Tatara er bannað að stíga fæti á Krímskaga.

Í mars 2015, ári eftir valdatöku Rússa, sagði bandaríska utanríkisráðuneytið að „staða mannréttinda á Krím [hefði] versnað til mikilla muna, Minnihlutahópar eru beittir auknum þrýstingi, hið sama má segja um trúarbrögð þeirra, einkum Krím-tatara sem sæta auk þess kerfislægri neitun um að njóta grundvallar-frelsis“.

Rússnesk stjórnvöld hafa einnig verið með tilburði til sátta í því skyni að fá Krím-tatara á sitt band. Þeir fengu lögfræðilega endurreisn á sama hátt og aðrir þjóðernis minnihlutahópar sem sættu kúgun Stalíns – gagnrýnendur segja að hér hafi þó aðeins tæknilegt atriði að ræða – þá hefur tungumál þeirra fengið opinbera stöðu.

Í ferð sinni nú bauð Pútín gamalgrónum Tatörum á Krím rússneskan ríkisborgararétt.

Í sömu andrá og rússnesk stjórnvöld reyna að gera sem minnst úr Töturum sem halla sér að stjórnvöldum í Kænugarði leitast þau við að auka hlut nýrri hópa Tatara sem vilja starfa með Kremlverjum.

Þessi blanda af hótunum og fyrirheitum hefur ýtt undir vaxandi klofning innan raða Krím-tatara um hvernig haga skuli samskiptunum við Rússa.

Heimild: RFE/RL, Reuters, TASS og Interfax

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …