Home / Fréttir / Kremlverjar hættir við stjórnarskipti í Úkraínu

Kremlverjar hættir við stjórnarskipti í Úkraínu

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu.

Rússnesk stjórnvöld hafa fallið frá því markmiði hernaðaraðgerða sinna í Úkraínu að knýja fram stjórnarskipti í landinu.

Dmitríj Peskov. talsmaður Kremlverja, skýrði frá þessu þriðjudaginn 22. nóvember í samtali við bresku Sky-fréttastofuna.

Við upphaf innrásar rússneska hersins í Úkraínu 24. febrúar 2022 var almennt talið að eitt af markmiðum hennar væri að velta stjórn landsins í Kyív og setja rússneska leppstjórn í hennar stað.

Óttast var að líf Volodymyrs Zelenskíjs Úkraínuforseta væri í hættu en hann dvaldist þó áfram í höfuðborg landsins.

Nú segir Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, hins vegar að stjórn lands síns hafi „ekki áform um að sérstök aðgerð hennar leiði til stjórnarskipta í Úkraínu“.

Hann sagði að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefði nú þegar „rætt um þetta“.

Við upphaf innrásarinnar sagði Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að stjórnarskipti í Úkraínu væru ekki markmið hennar – hann gaf hins vegar gagnstæða yfirlýsingu síðar.

Utanríkisráðherrann sagði í júlí 2022: „Við munum svo sannarlega aðstoða Úkraínumenn við að öðlast frelsi undan landstjórn sem starfar beint gegn fólkinu og gegn sögunni.“

Skoða einnig

Norski varðskipaflotinn endurnýjaður

Skrokkurinn af KV Hopen, þriðja nýja ísstyrkta varðskipi Norðmanna, var dreginn til Vard Langsten skipasmíðastöðvarinnar …