Home / Fréttir / Kremlarvinir lýsa Duginu sem píslarvotti í jarðarförinni

Kremlarvinir lýsa Duginu sem píslarvotti í jarðarförinni

Alexander Dugin flytur minningarorð um dóttur sína, Dariu.

Hundruð manna komu saman í Moskvu þriðjudaginn 23. ágúst til að votta Dariu Duginu virðingu við útför hennar. Þar var hún hyllt sem píslarvottur. Faðir hennar, þjóðernissinninn og hugmyndafræðingur stór-rússneskrar útþenslustefnu, Alexander Dugin (60 ára) minntist hennar með þeim orðum að hún hefði „dáið fyrir þjóðina, dáið fyrir Rússland“.

Daria Dugin var myrt af launmorðingja laugardaginn 20. ágúst þegar bíllinn sem hún ók var sprengdur í loft upp í útborg Moskvu. Alexander Dugin var bugaður af sorg þegar hann sagði:

„Aðeins er unnt að réttlæta þá þungu byrði sem á okkur hefur verið lögð með því að ná því sem mestu skiptir, sigri okkar. Hún lifði fyrir sigurinn og hún dó fyrir sigurinn. Okkar rússneska sigur, sannleika okkar, rétttrúnað okkar, ríki okkar.“

Stór svart/hvít andlitsmynd af Duginu hékk á vegg fyrir aftan kistu hennar.

Eftir að hún var myrt hefur þess verið krafist víða á æðstu stöðum í Moskvu að hennar verði hefnt með árásum í Úkraínu. Yfirvöld þar vara íbúa landsins við hættu af sprengjuárásum Rússa og banna samkomur miðvikudaginn 24. ágúst, þjóðhátíðardag Úkraínu.

Rússneska öryggislögreglan (FSB) sagði mánudaginn 22. ágúst að kona sem komið hefði frá Úkraínu seint í júlí til Rússlands með 12 ára dóttur sinni stæði að baki morðinu á Duginu. Eftir morðið hefði konan flúið með dóttur sinni til Eistlands. Stjórnvöld í Úkraínu hafa ítrekað hafnað allri aðild að verknaðinum og í Eistlandi var sögu FSB tekið sem „ögrun“.

Nokkrir rússneskir auðmenn vinveittir Kremlverjum og áhrifamenn í rússnesku stjórnmálalífi voru við jarðarförina þriðjudaginn 23. ágúst í sjónvarpsmiðstöð Moskvu. Við athöfnina töluðu fulltrúar þingflokkanna þriggja sem styðja stjórn Valdimirs Pútins forseta. Þeir báru lof á Duginu fyrir föðurlandsást hennar og fullvissuðu viðstadda um að þeim yrði náð sem gáfu fyrirmæli um morðið.

Íhaldssamur auðmaður og Kremlarvinur, Konstantin Malofeev, sem stóð nærri Dugin-fjölskyldunni, lýsti Duginu sem píslarvotti, dauði hennar mundi „efla“ Rússa í baráttu þeirra gegn Úkraínumönnum.

„Þeir sem berjast gegn okkur skilja ekki að rússneska þjóðin er ekki aðeins þeir sem nú lifa, til hennar heyra allir sem lifðu á undan okkur og munu lifa á eftir okkur. Og styrkur okkar mun magnast af blóði píslarvotta okkar. Og ótímabær endalok okkar ástkæru Döshu [Dariu] verða örugglega til þess að við sigrum í þessu stríði.“

Leonid Slutskíj, leiðtogi þjóðernissinnaða Frjálslynda lýðræðisflokks Rússland, þótti ómyrkur í máli þegar hann hvatti Rússa til að sameinast og sagði: „Án tillits til stjórnmálaflokka okkar, trúar og aldurs, er aðeins eitt takmark: eitt land, einn forseti, einn sigur.“

Á rússneskum samfélagsmiðlum þurfti ekki að bíða lengi eftir að bent yrði á líkindin milli orða Slutskíjs og alræmds slagorðs nazista: „Ein þjóð, eitt ríki og einn foringi.“

Athafnamaðurinn Jevgeníj Prigozhin, náinn samverkamaður Pútins forseta, var einnig við útförina. Hann er talinn standa að baki margvíslegum tölvu- og fjölþátta árásum á Vesturlönd auk sérstakra tengsla við ofbeldisfullu Wagner-málaliðana.

„Dasha var hornsteinn rússnesks mikilleika og styrks Rússlands. Og að þeir hafi gert tilraun til að raska þessum steini styrkir aðeins grunninn,“ sagði Prigozhin við blaðamenn að jarðarförinni lokinni.

Í útsendingu rússneska ríkissjónvarpsins frá stórum hluta jarðarfararinnar var einnig borið lof á Duginu og hún sögð píslarvottur.

„Í mínum huga er Dasha Dugina okkar tíma Jóhanna af Örk,“ sagði stjórnmála álitsgjafi rásar 1, Alexei Mukhin.

Mánudaginn 22. ágúst sæmdi Pútin Duginu heitna rússnesku orðunni sem kennd er við hugrekki. Í minngarbréfi sagði hann að hún hefði verið með „sannkallað rússneskt hjarta: góð, kærleiksrík, vinsamleg og opin“.

Heimild: The Guardian

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …