Home / Fréttir / „Kraftaverk“ að ég sigraði segir forsætisráðherra Ástralíu

„Kraftaverk“ að ég sigraði segir forsætisráðherra Ástralíu

Scott Morrison fagnar sigri í Sydney.
Scott Morrisson fagnar sigri í Sydney.

Íhaldsmaðurinn Scott Morrisson, forsætisráðherra í ríkisstjórn frjálslyndra og íhaldsmanna í Ástralíu, hélt velli í þingkosningum laugardaginn 18. maí. Miðað við spár fyrir kjördag lýsti hann sigri sínum sem „kraftaverki“. Hann þakkaði „þöglum meirihluta“ Ástrala stuðninginn. „Ég alltaf trúað á kraftaverk. En hvað Ástralía er stórkostleg!“ sagði Scott Morrisson á sigurhátíð flokksmanna sinna í Sydney.

Úrslitin vöktu mikla undrun og þykja verulegt áfall fyrir þá sem kanna hug kjósenda og spá fyrir um kosningaúrslit á grunni kannanna sinna. Fyrirtækin sem að könnunum standa höfðu spáð því að jafnaðarmaðurinn Bill Shorten mundi vinna með litlum mun. Hann fengi byr í seglin vegna umhverfisstefnu sinnar.

Stuðningsmenn Verkamannaflokksins voru þrumu lostnir á kosningahátíð í Melbourne að kvöldi kjördags þegar Bill Shorten sagði: „Það er ljóst að Verkamannaflokkurinn hefur ekki stöðu til að mynda næstu ríkisstjórn.“ Hann tilkynnti afsögn sína sem flokksformaður og hringdi í keppinaut sinn til að „óska honum til hamingju“.

Um 17 milljónir manna eru á kjörskrá í Ástralíu og þar er mönnum skylt að fara á kjörstað og nýta atkvæðisrétt sinn.

Scott Morrison hefur verið forsætisráðherra síðan í ágúst þegar hann stóð að „hallarbyltingu“ í flokki sínum. Kosningabaráttan var honum erfið, hann hefur nær einn orðið að verja flokk sinn og störf ríkisstjórnarinnar. Margir ráðherrar hafa neitað að leggja honum lið og aðrir hafa haldið sig til hlés til að valda flokknum ekki skaða. Morrison háði neikvæða kosningabaráttu og naut stuðnings íhaldssamra fjölmiðla í eigu blaðakóngsins Ruperts Murdochs. Með stefnu sinni og málflutningi höfðaði hann einkum til vel stæðra kjósenda og eldri borgara sem stóð ekki á sama um áform jafnaðarmanna í þá veru að þrengja net skattheimtunnar til að fjármagna útgjöld til menntamála, heilbrigðismála og loftslagsmála.

Kosningabaráttan var harkaleg, veist var að frambjóðendum á vettvangi og á samfélagsmiðlum voru þeir sakaðir um kynþátta- eða kvenhatur. Föstudaginn 17. maí var 62 árs karlmaður handtekinn, sakaður um að hafa troðið tappatogara niður í háls á manni sem bar kosningaspjöld.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …