Home / Fréttir / Krafist hertrar öryggisgæslu í þýska þinginu eftir handtöku valdaránsmanna

Krafist hertrar öryggisgæslu í þýska þinginu eftir handtöku valdaránsmanna

Birgit Malsack-Winkemann flytur ræðu í þýska þinginu árið 2019 sem þingmaður fyrir AfD-flokkinn 2017 til 2021.

Þess er krafist í Þýskalandi að aðgangs- og öryggisreglur þinghússins í Berlín verði hertar eftir að þýska lögreglan greip til einna umfangsmestu aðgerða síðari tíma nú í vikunni og handtók 25 manns vegna gruns um undirbúning hryðjuverks.

Aðgerðin beindist gegn samtökunum Reichsbürger, félagsmenn viðurkenna hvorki tilvist Þýska sambandslýðveldisins né vald stjórnenda þess. Voru menn handteknir í 11 sambandslöndum Þýskalands og í Austurríki og á Ítaliu.

Þýsk stjórnvöld segja að fyrir hópnum hafi vakað að ráðast á þinghúsið í Berlín og innleiða eigin stjórnarhætti. Hafi verið um vel undirbúin og alvarleg áform að ræða.

Í hópi handtekinna er dómarinn Birgit MalsackWinkemann sem sat á sínum tíma á þingi fyrir öfgaflokkinn Alternative für Deutschland. Sem fyrrverandi þingmaður hafði hún aðgang að byggingum þingsins, eins og allir fyrrverandi þingmenn hafa.

Með vísan til þessa krefjast  margir þýskir stjórnmálamenn þess nú að reglunum verði breytt og öryggi aukið í þinghúsinu.

Forystumenn í þýskum stjórnmálum, þar á meðal Olaf Scholz Þýskalandskanslari, hafa lýst reiði yfir að fyrrverandi þingmaður skuli hafa verið í samsærishópnum.

Fram kemur í fréttum að í öryggisviðbúnaði þýska þingsins sé ekki gert ráð fyrir að fyrrverandi þingmaður með aðgangsheimild birtist sem valdaræningi í þinghúsinu.

Otto Schilly, innanríkisráðherra Jafnaðarmannaflokksins (SPD) 1998 til 2005, segir í samtali við Die Welt að vissulega séu fréttir af félögunum í Reichsbürger alvarlegar en þó verði að líta til þess að þetta virðist furðufuglar, hann líti ekki á þetta fólk sem raunverulega ógn.

Olaf Scholz sagði að öryggisstofnanir ríkisins ættu nú, lögum samkvæmt, að leggja sjálfstætt mat á stöðu mála og gera tillöur um gagnráðstafanir, teldust þær nauðsynlegar.

Flokksforysta AfD sendi frá sér stutta tilkynningu og afneitaði öllum tengslum við Reichsbürger hreyfinguna og áform um stjórnarbyltingu.

Þeir sem fylgjast með færslum AfD-manna á samfélagsmiðlum segja að tónninn í þeim sem þar tjá sig sé allur annar en hjá flokksforystunni. Á netinu á það sjónarmið hljómgrunn hjá AfD að lögregluaðgerðin hafi verið sett á svið til að beina athygli frá hnífaárás í Illerkirchberg i BadenWürttemberg. Þar var mánudaginn 5. desember ráðist á tvær skólastúlkur og önnur þeirra myrt. Undir grun er 27 ára karlmaður frá Eritreu.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …