Home / Fréttir / Kostir Úkraínumanna gagnvart einræðisherranum Pútin  – eftir Olgu Chyzh

Kostir Úkraínumanna gagnvart einræðisherranum Pútin  – eftir Olgu Chyzh

Olga Chyzh

 

Meðfylgjandi grein birtist sunnudaginn 22. janúar 2023 á vefsíðu breska blaðsins The Guardian.

Höfundur er Olga Chyzh, er sérfræðingur í stjórnmálaofbeldi og kúgunar-ríkisstjórnum. Hún er aðstoðarprófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Toronto.

Greinin er þýdd og birt með leyfi höfundar.

Innrásin í Úkraínu er ekki alveg eins mikið áfall núna og hún var þegar Rússar hófu hana fyrir tæpu ári. Um helgina 15. janúar var flugskeyti miðað og skotið á íbúðablokk í Dnipro og grandaði hún 45 almennum borgurum. Nú ræða Bretar, Frakkar og jafnvel sí-varkárir Þjóðverjar um að láta Úkraínumönnum í té vestræna skriðdreka – það þótti óhugsandi jafnvel fyrir einum mánuði þegar vestrænu bandalagsríkin voru strand í skrifræðis hænsnaslag (e. game of chicken) og ekkert þeirra vildi senda fyrsta skriðdrekann.

Hvað breyttist? Háttsettir embættismenn á sviði varnarmála í Bandaríkjunum og ESB hafa skýrt síðustu framvindinu á þann veg að nú verði að aðstoða Úkraínumenn við að ná afgerandi árangri á vígvellinum sem mundi neyða Rússa til friðarviðræðna. Þetta gerist fyrst nú þó Úkraínustjórn hafi af örvæntingu hvatt Vesturlönd til að láta sér í té sóknarvopn frá því skömmu eftir að innrásin hófst.  Hvað ræður þessari nýju ákvörðun vestrænna stuðningsþjóða Úkraínu?

Svarið er að finna í tímalínu stríðsins, kenningu sem þekkt er meðal fræðimanna um fælingu undir heitinu „skuggi framtíðarinnar“. Þegar „þriggja daga stríð“ Pútins lengdist um vikur og mánuði varð hvor aðili að gera langtíma áætlun. Eftir dálítið hökt í byrjun samþykktu Vesturlönd loks að fylgja klassískri skólabókar hernaðarstefnu um stigmögnun í skrefum.

Skref fyrir skref hefur hernaðarlega aðstoðin magnast frá litlum gagnskriðdreka tækjum til stórskotavopna, Patriot gagneldflaugakerfis og skriðdreka. Með þessari stefnu eru send svipuð merki og þegar stig af stigi er meira lagt undir í póker til að gefa til kynna sterk spil á hendi. Þegar Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra fara yfir hvert „rautt strik“ Rússa eftir annað senda þeir skilaboð um að þeir hafi ákveðið að veita Úkraínumönnum nægan stuðning til að hrinda innrás Rússa. Að baki þessu býr sú hugmynd að trúi Rússar því að þeir nái ekki lokamarki sínum með hernaðinum velji þeir strax þann kost að minnka tjón sitt frekar en að heyja áfram stríð án þess að geta sigrað.

Hvers vegna draga Rússar sig þá ekki í hlé? Vegna þess að Pútin starfar innan annars stofnanaramma á heimavelli en andstæðingar hans í vestri. Lýðræðislegir leiðtogar halda velli með því að njóta stuðnings umtalsverðs fjölda þeirra sem eru á kosningaaldri. Valdatími Pútins takmarkast aðeins við það hve lengi hann nýtur stuðnings fáeinna innvígðra elítuhópa sem flestir eiga alla upphefð sína í atvinnulífinu eða stjórnkerfinu undir honum. Þótt oft skerist í odda milli þessara elítuhópa þegar þeir reyna að auka áhrif sín er það velvild Pútins sem ræður hve mikið þeir fá í aðra hönd og hafa þeir enga stöðu til að andmæla stefnu hans eða framkvæmd hennar vegna þess að bein tengsl eru milli örlaga þeirra.

Þetta stofnanakerfi skapar leiðtoga Rússlands forskot á tveimur mikilvægum sviðum. Í fyrra lagi í tíma. Þar sem Pútin eru ekki settar skorður með reglulegum kosningum getur hann leikið langt fram í tímann, hann getur beðið þar til þeir sem nú standa með Úkraínu meðal forystumanna í vestri víkja fyrir þeim sem eru á annarri skoðun.

Á sama tíma og vestrænir leiðtogar hylla hver annan fyrir að vera svona frábærir í þessu pókerspili sitja Pútin og elítur hans ekki einu sinni með spil sín við sama borð. Frá sjónarhóli Rússa eru núverandi andstæðingar þeirra í vestri ekki annað en augnabliks deplar á leið þeirra til hernaðarlegra markmiða. Eftir tvö ár verður forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, líklega ekki lengur á sama stað til að tryggja að Vesturlönd standi saman að baki Úkraínu. Og jafnvel smá sprunga getur nægt til að mál snúist Rússum í hag.

Seinna forskotið birtist í svigrúmi Pútins til stefnumótunar. Hann ber enga ábyrgð gagnvart almenningi sem ber meginþunga fjárhagslegra byrða vegna stríðsins, stefnumótun Pútins ræðst af hagsmunapoti innan þröngs hóps þeirra sem standa honum næst. Hér er einkum um að ræða elítur hers og öryggislögreglu sem hafa engar efasemdir um stríðið: í þeirra augum er hagurinn af því að endursameina gömul sovésk landsvæði langtum meiri en það sem elíturnar líta á sem tímabundinn kostnað. Sumar þeirra hafa hvatt til frekari stigmögnunar eins og með því að hervæða allt rússneska þjóðfélagið. Núverandi samþjöppun valds hjá íhaldssömum elítum Rússlands gefur til kynna að heimsvalda utanríkisstefnan í Kreml nái langt út fyrir leiðsögn Pútins.

Á Vesturlöndum haga menn sér eins og þeir átti sig ekki á síðara forskotinu, þeir meta Rússland ranglega með eigin mælistiku. Að mati vestrænna leiðtoga setur ákveðinn þröskuldur herkostnaði skorður, hvort heldur litið er til mannslífa eða fjármuna, vegna hans neyðist Rússar til að hörfa: það kynni að duga Úkraínumönnum að brjótast enn einu sinni í gegn til að Rússar sæju ljósið og sættu sig við einhverjar málamiðlanir.  Biden og evrópskir bandamenn hans gleyma því hins vegar að einræðissinnaðir leiðtogar búa ekki við sama þrýsting frá almenningi og leiðtogar lýðræðisstjórna. Dapurlegar myndir sem sýna hermenn snúa til baka í líkpokum veikja stöðu lýðræðislegra forseta en skipta engu máli fyrir leiðtoga sem eiga vald sitt ekki undir stuðningi almennings. Fjöldi látinna verður aldrei til þess að milda hjarta rússneska faraóans.

Hvað þýðir þetta fyrir Úkraínu? Að Rússar munu ekki sýna neina vægð. Í rússneskum málshætti segir að fyrsta pönnukakan í bunkanum sé sjaldan slétt – það þurfi með öðrum orðum að búa sig undir að fall sé fararheill. Þetta virðist einnig eiga við um hernað þeirra. Dæmin frá stríðum Sovétmanna og Finna og síðar Rússa við Tsjetjena sýna að misheppnað fyrra stríð heppnast þegar lagt er til atlögu öðru sinni.

Jafnvel þótt Úkraínumenn reki hvern og einn einasta rússneskan hermann úr landi sínu leiðir það ekki til þess að ágengni Rússa ljúki. Rússar munu halda áfram gera kröfur til lands í Úkraínu og fylgja þeim eftir með hótunum, stöku flugskeytum og landamæraerjum. Verjandinn vinnur aldrei neinn úrslitasigur. Í úrslitasigri felst að árásaraðilinn sé eyðilagður, snúi hann til baka eftir stutt hlé. Úkraínumenn hafa hvorki burði til að brjóta vilja Rússa né varanlega getu þeirra til að leggja undir sig úkraínskt land. Þegar um er að ræða árásaraðila sem er ónæmur fyrir þrýstingi á alþjóðavettvangi eða heimavelli er brothættur friður, studdur alfullkomnasta gagneldflaugakerfi og framúrskarandi herafla í viðbragðsstöðu líklega besta niðurstaðan sem Úkraínumenn geta vænst.

Úkraínumenn vita þetta jafnvel þótt stuðningsmenn þeirra á Vesturlöndum voni enn að semja megi um lausn í góðri trú. Úkraínumenn verða að búa sig undir varðstöðu til langframa, styrkja tengsl sín við fleiri hugsanlega bandamenn og þróa eigin hergagnaiðnað frekar. Eina leiðin til að Úkraínumenn geti búið við varanlegan frið er að þeir birgi sig upp af stærstu byssum sem þeir geta fundið.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …