Home / Fréttir / Kosningaúrslitin og valddreifing í Bandaríkjunum

Kosningaúrslitin og valddreifing í Bandaríkjunum

Þinghúsið í New Hampshire. Þar hafa repúblikanar nú meirihluta í báðum deildum.
Þinghúsið í New Hampshire. Þar hafa repúblikanar nú meirihluta í báðum deildum.

Bandaríkjamenn gengu að kjörborðinu 3. nóvember síðastliðinn.  Óhætt er að segja að mikill áhugi hafi verið á kosningunum á heimsvísu.  Mjög margir fylgdust spenntir með baráttu Donalds Trumps og Joes Bidens um forsetaembættið.  Ýmsir hafa einnig fylgst með baráttunni um laus sæti í öldungadeildinni og þó að spennan hafi verið minni um hvaða flokkur myndi bera sigur úr býtum í fulltrúadeildinni hafa einhverjir sýnt þeim slag áhuga.

Þó niðurstöðurnar í fyrrnefndum kosningum séu mikilvægar segja þær aðeins hálfa söguna um hvernig valdahlutföllin munu verða milli demókrata og repúblikana í Bandaríkjunum næstu ár enda snúa þær aðeins að alríkisstjórninni í Washington.  Þar sem Bandaríkin eru sambandsríki skiptir ekki síður máli hverjir halda um stjórnvölinn í ríkjunum fimmtíu.  Fjallað er um hvers vegna kosningar í ríkjunum skipta máli í greinum í miðlunum Vox og Politico.

Vald ríkjanna

Stjórnkerfi ríkjanna eru með svipuðu sniði og alríkisstjórnarinnar í Washington.  Framkvæmdavaldið er í höndum ríkisstjóra og stjórnar hans sem í flestum ríkjum er að hluta til kosin.  Í hverju ríki, fyrir utan Nebraska, er þing sem skiptist í tvær deildir.  Vald þessara aðila er víðtækt og í mörgum ríkjum nær það til kjördæmaskipulags.

Á 10 ára fresti er manntal tekið í Bandaríkjunum og í kjölfarið er kjördæmum breytt því sú krafa er gerð að u.þ.b. jafn margir kjósendur séu í hverju kjördæmi.  Í þeim ríkjum þar sem pólitískir fulltrúar ákvarða kjördæmamörk notar meirihlutinn venjulega tækifærið til að hanna kjördæmi sem hagnast viðkomandi flokki.  Á ensku kallast þetta ferli gerrymandering og hefur leitt til þess að í gegnum tíðina hafa mörg kjördæmi í landinu litið ansi furðulega út.  Stjórnmálamennirnir hafa vald til þess að endurskipuleggja tvenns konar kjördæmi.  Annars vegar þau sem farið er eftir í kosningum innan ríkisins en einnig þau sem stuðst er við þegar kosið er til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.  Af þessu má ráða að áhrif þeirra sem hafa þetta vald hverju sinni eru afar mikil.

Stjórnmálabarátta í ríkjunum síðustu árin

Manntal var tekið í Bandaríkjunum árið 2010.  Sá flokkur sem stóð sig betur í næstu kosningum til ríkisþinga var því í góðri stöðu til að auka völd sín næsta áratuginn bæði í ríkjunum sjálfum og í Washington. Repúblikanar unnu þann slag.  Eftir kosningarnar réðu þeir yfir 54 af 99 þingdeildum og hafði ekki gengið betur í tæp 60 ár.

Þegar Donald Trump var kosinn forseti árið 2016 náðu repúblikanar einnig völdum í fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings.  Í kjölfarið lögðu demókratar meiri áherslu á að ná völdum í einstaka ríkjum næst þegar yrði kosið.  Þeir bættu skipulag sitt í þeim auk þess sem þeir lögðu meiri fjármuni í kosningabaráttuna.  Áætlunin bar nokkurn árangur og í kosningum sem haldnar voru árið 2018 fjölgaði þingdeilum undir þeirra stjórn um sex.  Vonuðust demókratar til að bæta stöðu sína enn frekar í kosningunum nú í nóvember enda væru þær afar mikilvægar fyrir flokkinn.  Það gekk ekki eftir.  Þegar þetta er skrifað er staðfest að þeir hafi misst völdin á ríkisþingi New Hampshire, bæði í fulltrúa- og öldungadeildinni.  Repúblikanar ráða því sem fyrr um 60% þingdeilda í ríkjum Bandaríkjanna.

Margir demókratar rekja slakan árangur til þess að kjördæmi í mörgum ríkjum séu hönnuð á þann veg að repúblikanar hafi þar óeðlilegt forskot.  Einnig hafi sum ríkisþinganna samþykkt lög sem ætlað er að draga úr möguleikum hópa, sem almennt kjósa demókrata, að komast á kjörskrá.  Ekki eru þó allir á því að þetta sé eina skýringin.  Ýmsir málsmetandi demókratar og aðrir aðilar halda því fram að flokkurinn hafi vanrækt kosningar til ríkisþinga í fjölda ára og sé því illa í stakk búinn til að heyja þar kosningabaráttu við repúblikana sem séu mjög vel skipulagðir.  Hver sem skýringin er þá er framtíðin ekki jafn björt fyrir demókrata og kann að virðast nú eftir forsetakosningarnar.  Í mörgum ríkjum Bandaríkjanna munu repúblikanar ráða því hvernig kjördæmi líta út næsta áratuginn nokkuð sem mun styrkja stöðu þeirra í fjölmörgum kosningum fram yfir 2030.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …