Home / Fréttir / Kosningar ársins 2017 magna enn óvissu innan Evrópusambandsins

Kosningar ársins 2017 magna enn óvissu innan Evrópusambandsins

Geert Wilders tekur „sjálfu“ af sér og Marine Le Pen
Geert Wilders tekur „sjálfu“ af sér og Marine Le Pen

Um áramótin ríkir töluverð óvissa um framtíð Evrópusambandsins. Bretar samþykktu 23. júní 2016 að segja sig úr sambandinu. Enn er óljóst hvernig staðið verður að framkvæmd ákvörðunar þeirra eða hve langan tíma hún tekur.

Ítalir felldu 4. desember 2016 stjórnarskrártillögu ríkisstjórnar sinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálaöfl andstæð ESB og evru-aðild Ítala báru sigur úr býtum. Óvissa ríkir um hvort þing verði rofið á Ítalíu og gengið til kosninga sem kynnu að snúast um ESB og evru-aðildina.

Á árinu 2017 verður gengið til kosninga í Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi. Úrslit í hverju landi fyrir sig geta ráðið miklu um framtíð ESB. Í öllum löndunum þremur hafa flokkar byr í seglinn sem eru neikvæðir í garð ESB.

Þingkosningar verða 15. mars 2017 í Hollandi. Kannanir sýna að PVV, flokkur Geerts Wilders, sem leggst hart gegn straumi innflytjenda til Hollands, nýtur stuðnings flestra. Fylgi hans var 35% í desember, 10 stigum meira en fylgi VVD, flokks Marks Ruttes forsætisráðherra.

Wilders fer ekki leynt með markmið sitt. Hann vill verða forsætisráðherra og fá tækifæri til að „spúla dekkið“ og hreinsa það sem „fjölmenningarelítan“ hefur skilið eftir sig. Hollendingar eiga að verða eigin herrar og fé þeirra á ekki að renna áfram til „Brussel og Afríku“. Þá verður flóðbylgja þeirra sem ekki eiga heima í Hollandi stöðvuð. Wilders var kjörinn stjórnmálamaður ársins 2016 í Hollandi.

Stefna PVV er að losa um tök ESB á hollensku þjóðinni. Stöðva skal samrunaþróunina innan ESB, verði ekki orðið við kröfunni um það verður næsta skref PVV einfaldlega að beita sér fyrir „nexit“, úrsögn Hollands úr ESB.

Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, sem nýtur nú um 25% stuðnings í könnunum, hefur svipaða afstöðu til ESB og Wilders. Le Pen lofar kjósendum að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild Frakka.

Fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi verður 23. apríl og seinni umferðin 7. maí, fái enginn meira en 50% í fyrri umferðinni.

Kjósa skal til þýska sambandsþingsins í síðasta lagi í október 2017. Kristilegir demókratar (CDU) undir forystu Angelu Merkel Þýskalandskanslara eru enn sem fyrr stærsti flokkur Þýskalands með 32 til 36% fylgi í könnunum. Stuðningurinn við flokkinn hefur minnkað frá því að hann var um 40% áður en  Merkel opnaði landamæri Þýskalands fyrir straumi flótta- og farandfólks til landsins á seinni helmingi ársins 2015. Þá komu alls 890.000 hælisleitendur til Þýskalands.

Eftir umskiptin á árinu 2015 hefur flokkurinn Alternative für Deutschland (Afd), Annar kostur fyrir Þýskaland, aukið fylgi sitt jafnt og þétt. Hann mælist nú þriðji stærsti flokkur landsins með 13% fylgi. Hann hefur horn í síðu ESB og sver sig í ætt við flokka Wilders og Le Pen.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …