Home / Fréttir / Kosið til ESB-þingsins í 21 landi sunnudaginn 26. maí

Kosið til ESB-þingsins í 21 landi sunnudaginn 26. maí

48872779_303

Kjósendur í Tékklandi, Slóvakíu, Möltu og Lettlandi kusu þingmenn á ESB-þingið laugardaginn 25. maí. Bretar og Hollendingar gengu til kosninga á ESB-þingið fimmtudaginn 23. maí og Írar föstudaginn 24. maí. Kosið var í Tékklandi bæði á föstudag og laugardag.

Sunnudaginn 26. maí ganga kjósendur í 21 ESB-ríki að kjörborðinu. Er úrslita í kosningunum vænst að kvöldi sunnudags þegar kjörstöðum í löndunum hefur verið lokað.

Um 418 milljón manna eru á kjörskrá í 28 aðildarríkjum ESB. Fjölmennari lýðræðislegar kosningar fara aðeins fram á Indlandi þar sem um 900 milljónir manna voru á kjörskrá í nýafstöðnum þingkosningum.

Útgönguspár í Hollandi gefa til kynna að flokkar hlynntir ESB vinni óvænt á í kosningunum þar. Spáin sem birt var fimmtudaginn 23. maí bendir til þess að gagnrýnendur ESB auki ekki fylgi sitt eins og ýmsir höfðu talið að mundi gerast.

Talið er að hollenski verkamannaflokksmaðurinn Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, fái fimm af 26 sætum Hollendinga á ESB-þinginu.

Í Bretlandi gerðist það á kjördag að hundruð ef ekki þúsundir manna sem ekki eru breskir ríkisborgarar en hafa réttindi EES-borgara fengu ekki að kjósa þar sem þeir væru ekki á kjörskrá.

Starfsmenn á kjörstöðum gáfu þá skýringu að ekki hefði unnist tími til að gefa út eyðublað til skráningar á kjörskrá í tæka tíð fyrir kjördag. Í sumum tilvikum viðurkenndu heimamenn á kjörstöðum þó að þeim hefði orðið á mistök.

Alls er kjörinn 751 þingmaður á ESB-þingið. Þingmönnum fækkar í 705 þegar Bretar ganga úr ESB. Fjöldi þingmanna fyrir hvert land ræðst af íbúafjölda landanna.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …