Home / Fréttir / Kórónaveiran kallar á ný alþjóðleg viðhorf

Kórónaveiran kallar á ný alþjóðleg viðhorf

mjaxnjeyytczzjfjngqyymuzymm3zdkzogexmjjmntq3otnkzdy
Hubert Védrine

Hubert Védrine: Áfallið vegna kórónaveirunnar er við að gera að engu réttmæti margra þeirra viðbragða, hugsjóna og trúarsetninga sem hafa fest djúpar rætur.  

Hubert Védrine (72 ára) var yfirmaður forsetaskrifstofu François Mitterrands á sínum tíma og utanríkisráðherra Frakklands 1997 til 2002. Í Frakklandi er litið á hann sem raunsæjan greinanda alþjóðamála. Hann er mikils metinn af stjórnmálamönnum jafnt til hægri og vinstri.

Anne Fulda á Le Figaro tók þetta viðtal og birtist það 22. mars 2020.

LE FIGARO – Hver teljið þér áhrif kórónaveirunnar á alþjóðavettvangi vera?

Hubert VÉDRINE. – Þetta hnattræna hættuástand, án fordæmis síðan í heimsstyrjöldunum, sýnir eða staðfestir að ekki er enn orðið til raunverulegt alþjóðasamfélag eða að það er ekki undir það búið að takast á við heimsfaraldur. Bill Gates og herfræðingar hafa sagt þetta frá því eftir Ebóluna. Og menn vissu þá þegar að hnattvæðing undanfarinna áratuga hefur einkum snúist um að afregluvæða fjármálakerfin og um að stofna til iðnaðarframleiðslu á þeim stöðum þar sem launakostnaður er sem lægstur, í Kína og annars staðar í nýmarkaðslöndum (fræga „virðiskeðjan“) án þess að annað kæmi til álita. Í ljós kemur að menn hafa ýtt til hliðar sjónarmiðum varðandi hið strategíska ósjálfstæði sem af þessu leiðir. Þá sést að ekki er fyrir hendi fjölþjóðlegt kerfi (SÞ, WHO, G7, G20…) sem virkar nógu vel. Þá fæst staðfesting á því að Evrópusambandið, sameiginlegi markaðurinn og stefnan um sameiginlega niðurstöðu ríkjanna eiga aðeins við í heimi sem er laus við hörmungar. Hins vegar hafa fólksflutningar festst í sessi, umfangsmiklir og til vandræða. Þetta vissu menn en nú blasir það við öllum.

Evrópa er utangarðs, Kínverjar útvega Ítölum með lækningatæki … er þetta ekki til marks um að allt hafi umturnast?

Það er hárrétt, en þetta hefur verið að gerast á löngum tíma jafnvel þótt hefðbundnu valdaþjóðirnar, Vestrið, hafi reynt að spyrna við fótum, og hafi mörg spil á hendi. Kínverjar eru númer eitt og fela það ekki lengur. Það nægir að líta á hve risavaxið og metnaðarfullt silkileiðaverkefnið er. Og einnig á oflætisfulla framkomu þeirra, sem er sambærileg okkar. Það er ekki hægt að álasa Kínverjum fyrir að hagnýta sér hnattvæðinguna. Það erum við Evrópumenn sem eigum að velta fyrir okkur okkar eigin stefnu, eigin barnaskap. Þetta er mjög erfitt fyrir Evrópumenn sem líta enn á sjálfa sig sem framverði siðmenningarinnar í heiminum. Um leið og þetta er sagt um Evrópu ber að geta þess að Seðlabanki evrunnar hefur samt sem áður ákveðið að leggja fram meira en 1000 milljarða evra (9% af VLF) og framkvæmdastjórnin ákveðið að „fella  úr gildi“ fjárlagareglurnar! Þetta gæti hugsanlega verið ný Evrópa!

Við þessar hættulegu aðstæður hafa einnig birst vanmetnir vankantar eða áður óþekktir: efnahagslegt ósjálfstæði Frakka varðandi ýmsan lykilvarning eins og lyf …

Það er rétt og snertir ekki aðeins Frakka. Í heimi hnattrænna viðskipta og ekki aðeins vegna „hugmyndafræði WTO“ er varla litið á neitt sem strategískan varning fyrir utan það sem í þrengsta skilningi fellur undir hergögn. Þetta gerðist samhliða því að grafið var með stórlega ýktum og ógáfulegum hætti undan fullveldi og hlutverki ríkja.

Má ekki draga alvarlega í efa gildi ákveðins hluta hnattvæðingarinnar?

Draga má í efa margar sjálfsblekkingar hennar, ýkjur, afleiður. Jafnvel þótt ýmsir reyni að koma í veg fyrir það. Þetta á auðvitað við um hugmyndina um heilladrjúgu hnattvæðinguna sem var nú þegar í sárum. Heilladrjúg? Hún var það í ákveðinn tíma samkvæmt formúlunni, fyrir fátæka í fátæku löndunum og fyrir ríka í ríku löndunum. Þar til blekking almennings og miðstéttar í þróuðum ríkjum umbreyttist í uppgjöf og popúlisma. Fyrir utan þetta má þá ekki einnig segja að lífsstíl áhyggjuleysis, lífsnautna, einstaklingshyggju og skemmtana sem virtist mest metinn mannréttinda ( í augum ýmissa mikilvægari en fjölmiðlafrelsið) hafi verið stefnt í voða? Þessi lífsstíll hafði í för með sér fyrir mannkynið eða hluta þess stöðugan hreyfanleika án marka eða hlekkja, einskonar Browns hreyfanleika. Sé litið á stöðugar viðskiptaferðir og fjöldatúrisma (1,4 milljarður ferðamanna árið 2019) voru flugfarþegar árið 2017 alls um 4 milljarðar, „vonandi“ 8 milljarðar árið 2035 (fyrir heimsfaraldurinn).

Það má jafnframt draga í efa „kasínó efnahagsstefnuna“ um takmarkalausa fjármögnun (sem hófst í tíð Obama og sem Trump eyðilagði) og „virðiskeðjur“ hennar sem taka ekkert tillit umhverfiskostnaðar. Ef maður velur ekki af ásetningi að lifa í sjálfsblekkingu sér maður að þetta er ekki aðeins ógn við lífsstíl heldur heila siðmenningu.  Okkar siðmenningu, nema við lifum í algjörum sýndarveruleika. Mann sundlar.

Meðal kennisetninga sem þessi krísa hefur splundrað má nefna þá sem snertir opnun landamæra, hún hefur til þessa verið ósnertanleg og tengd Evrópu?

Réttmæti þeirrar kennisetningar hefur nú þegar verið dregin mjög í efa innan Schengen vegna bylgju fólksflutninga á undanförnum árum í kjölfar stríðsins í Sýrlandi. Áfallið vegna kórónaveirunnar er við það að gera að engu réttmæti margra þeirra viðbragða, hugsjóna og trúarsetninga sem hafa fest djúpar rætur.

Það er forvitnilegt að frjáls för um Evrópu er orðið óvéfengjanlegt tákn hennar. Schengen-samkomulagið kom ekki til sögunnar fyrr en árið 1985 (Rómarsáttmálinn er hins vegar frá 1957). Í upphafi var þetta ekki annað en hógvært – og skynsamlegt – frumkvæði ráðherra Evrópumála. Það hefur svo smátt og smátt í tímans rás orðið að grunnþætti en er einnig, því miður, markað af saknæmri vanrækslu að því er varðar ytri landamærin, vegna hugsjóna, vegna „án-landamærastefnunnar“, því að á sínum tíma töldu menn að samninga mannúðar og efnahags mætti teygja endalaust. Í sama anda og menn höfðu áður boðað trú, eignast nýlendur og komið á siðmenningu átti nú að opna heiminn. Þetta var allt í senn tilfinningalegt framtak, vinsamlegt, barnalegt, hrokafullt og hættulegt. Schengen-samkomulagið, frjáls för, hefur afturvirkt orðið að sjálfu tákni Evrópu. Að hafna landamærum varð að einskonar trúarbrögðum sem ekki mátti afneita. Sylvain Tesson [franskur rithöfundur] hefur algjörlega rétt fyrir sér þegar hann segir [í viðtali við Le Figaro 20. mars 2020]: „Sá sem leggst vitsmunalega gegn trúnni á flæðið er hundur. Múrinn er tákn illskunnar.“ Það sem nú hefur gerst grefur hins vegar undan þessu öllu. Menn verða aftur að reyna að sýna raunsæi.

Það verður að skapa starfhæft kerfi reist á alþjóðasamvinnu til að finna, vara við, semja viðbragðsáætlanir og standa að aðgerðum gegn óhjákvæmilegum heimsfaröldrum framtíðarinnar.

Hvaða lærdóm á að draga af þessu öllu? Má vænta „nýrrar veraldar“ eftir þessa krísu?

Lærdómurinn er margvíslegur og mörgu þarf að breyta. Auðvitað vilja þau kraftmiklu öfl sem tala fyrir óbreyttu ástandi í efnahagsmálum, viðskiptum og á sviði félagsmála að snúið verði aftur til þess „venjulega“, einkum ef lækningar Kóreumanna og Dr. Raoults [Frakkinn dr. Didier Raoult hefur beitt malaraíu-lyfi gegn Covid-19] skila árangri. Það ætti ekki að láta undan þeim heldur byrja á að reyna að viðhalda varúðarreglunum eftir að ferðatakmörkunum er aflétt. Þá ber að skoða og meta af vandvirkni allt sem má betur fara eða leggja af á alþjóðavettvangi, í Evrópu, hjá þjóðríkjunum, á sviði vísinda, stjórnsýslu, samfélagsmála eða varðandi einstaklinga. Það ætti að koma á fót skilvirku alþjóðakerfi með samvinnu ríkisstjórna – miklu frekar en ruglingslegu „alheimsstjórnkerfi“ – til að ráðast umsvifalaust í greiningar, birta viðvaranir, skipuleggja varúðarráðstafanir og meðferðir vegna óhjákvæmilegra heimsfaraldra í framtíðinni. Það þarf einnig að skýra það hvers lags aðstæður skapa hættu á því að sjúkdómar berist frá dýri í mann. Endurmeta kerfið sem kennt er við SÞ-Bretton Woods-G7-G20 o.s.frv.

Á öllum sviðum ber einnig að setja umhverfisverndarskilyrði: Í landbúnaði, landbúnaðarframleiðslu, iðnaði (þ.m.t. efnaiðnaði), flutningum, byggingariðnaði, orkumálum, reikniaðferðum við mat á þáttum í landsframleiðslu (VLF). Þetta mun leiða til frekari endursvæðavæðingar  efnahagslegra strauma. Leiða til hringrásarframleiðslu og -hagkerfis (meiri endurvinnsla, minni úrgangur). Á tíu til fimmtán árum stuðlar þetta að breytingum á landbúnaði og landbúnaðarframleiðslu. Að byltingu í flutningum og á öðrum sviðum. Allt þetta hófst í háþróuðustu löndunum en þessari þróun þarf að hraða og hún þarf að fara víðar.

Öll úrræðin sem þér nefnið hafa þau ekki í för með sér róttækar breytingar á lífsháttum okkar?

Ah! Án þess þó að hverfa aftur til Pascals [Blaise Pascal 1623-1662, franskur stæðrfræðingur og uppfinningamaður] þyrfti í raun að draga úr þessu stöðuga eirðarleysi! En hver getur það? Þeir sjö milljarðar Sapiens sem nú eru uppi vilja ekki hverfa aftur til veiðimannsstigsins sem var við lýði í Rift-dalnum. Þetta eru lífshættir 21. aldar mannsins. Þeir sem enn eru útilokaðir frá þessum lífsháttum eru drifnir áfram af aðeins einni hugsun: Að komast þangað. Hins vegar verða menn kannski að huga að þeim spjöllum sem fjöldatúrismi veldur (og ekki ætti að rugla saman við ferðalög): Dubrovnik, Santorin, Angkor eru dæmi um fórnarlömb, og bráðum Feneyjar. Og þurfum við virkilega að sækjast eftir því að fá 100 milljón ferðamenn til Frakklands? „Sama hvað það kostar?“ Ef svo er þýðir það að líkindum að við gætum þurft að taka á okkur skell.

Ýmsir mæla nú þegar með afhnattvæðingu orku …

Tölum frekar um „afkolvetnavæðingu“. Ég minni annars á að af öllum þróuðum ríkjum heims eru Frakkar með kolvetnaminnstu orkuframleiðsluna. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir reglulegum samdrætti í brennslu kola (Hvernig á að sannfæra Kínverja, Indverja, Pólverja, Þjóðverja um það?) sem og áframhaldandi nýtingu kjarnorku – sem er laus viðútblástur CO2 – allt þar til við finnum hagkvæma leið til að varðveita orku sem er framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Og Evrópa? Getur hún einnig dregið lærdóm af þessari krísu?

Hún heldur áfram og finnur ef til vill leið í þessari einstöku krísu til að losa sig undan stjórnsýslulegri þröngsýni og ágöllum: að tengja betur saman – með auknu dreifræði – fullveldi þjóða sem þarf að vernda og fullveldi Evrópu sem þarf að skilgreina.

Hvað finnst yður um stjórn Emmanuels Macrons á þessari krísu? Stríðsorðræðu hans, fyrirmæli hans um að lesa?

Stríð? Já! Lesa? Bara að einhver hlustaði á hann! En hann sagði „ekkert verður eins og áður“. Almennt séð gefur krísan ný tæki til að „hnattvæða“ valdið andspænis „hnattvæðingarsinnum“ og til að regluvæða andspænis ábyrgðarlausum and-reglusmiðum. Mestu skiptir núna að koma böndum á faraldurinn og komast hjá efnahagslegu (og þar með félagslegu) hruni. En maður væntir þess að Emmanuel Macron stýri „eftirleiknum“ á öllum stigum. Þar er um sögulegt tækifæri að ræða.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …