Home / Fréttir / Kórónaveiran fjölgar kortum en fækkar seðlum í Þýskalandi

Kórónaveiran fjölgar kortum en fækkar seðlum í Þýskalandi

 

Tveggja metra reglan og kort í þýskri verslun.
Tveggja metra reglan og kort í þýskri verslun.

Þjóðverjar eru þekktir fyrir að forðast að greiða með kortum og kjósa þess í stað reiðufé viðskiptum. Nú velta þýskir fjölmiðlar því fyrir sér hvort COVID-19-faraldurinn og tveggja metra reglan neyði fólk til að nota kort eða greiða á netinu. Þýska fréttastofan DW spyr: boðar þetta endalok aflvaka seðlaviðskipta í Evrópu?

Það er mun sjaldgæfara í Þýskalandi en annars staðar að sjá fólk borga með korti í verslunum svo að ekki sé talað um að nota snjallsíma til þess. Þá gerist það einnig oftar en annars staðar að neitað sé að taka á móti kortagreiðslum í verslunum eða veitingahúsum í Þýskalandi.

Nú hafa margir eigendur þýskra verslana og veitingahúsa sett upp skilti þar sem óskað er eftir rafrænni greiðslu, helst með snertilausu korti eða snjallsíma. Þetta er gert til að draga úr snertingu sem leiðir af greiðslu með reiðufé.

Þá færist einnig í vöxt í Þýskalandi eins og annars staðar að menn kaupi nauðsynjar og annan varning á netinu og millifæri þar fyrir hann. Þetta „neyðir“ þýska neytendur til að laga sig að nýjum viðskiptaháttum og seðlarnir víkja.

Þýski seðlabankinn, Bundesbank, hefur sent frá sér tilkynningar til að draga úr hræðslu almennings við að nota seðla og smámynt. Bent er á að allar vörur í verslunum fari almennt í gegnum fleiri hendur en reiðufé.

Wilfried Fuhrmann, sérfræðingur í peningamálum við Potsdam-háskóla, segir að ástandið núna sér misnotað af þeim sem hafa hag af því að auka kortaviðskipti.

Gunther Schnabl, hagfræðingur við Leipzig-háskóla, segir að nú sé aðeins stigið enn eitt skrefið til að hætta notkun reiðufjár. Þetta hafi verið gert beint til dæmis með því að hætta prentun á 500 evru seðlum auk sé framkvæmdastjórn ESB að athuga hvort afmá beri smámynt. Þá sé þetta gert óbeint með verðbólgu.

Bent er á að um þessar mundir séu milljónir evru-seðla og milljarðar evru-myntar í notkun og í Þýskalandi séu um 58.000 hraðbankar. Á hinn bóginn sé dýrt og flókið að fara höndum um allt þetta reiðufé. Það verði að prenta eða slá, telja, geyma og flytja í banka eða hraðbanka. Síðan verði að flokka það að nýju og telja, fara með það aftur í banka og að lokum eyða. Talið er að kostnaður við þessa umsýslu alla sé 0,5% af vergri heimsframleiðslu.

Ein aðferð þýskra fjármálastofnana til að ýta undir kortaviðskipti er að fækka hraðbönkum. Það myndast víða biðraðir við þá og það dregst að setja seðla í þá. Allt dregur þetta úr áhuga á seðlanotkun.

Fuhrmann bendir á að bankar hagnist ekki á að tryggja nægt framboð á reiðufé. Þeir reyni því að draga út ásókn í það með hindrunum og minna framboði.

Á hinn bóginn er bent á að bankar fari hægt í sakirnar þegar um það er að ræða að hvetja til aukinna kortaviðskipta með því að lækka árgjöld vegna kortanna.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …