Home / Fréttir / Kórónaveiran býr um sig í Hvíta húsinu

Kórónaveiran býr um sig í Hvíta húsinu

200311095901-anthony-fauci-0309-super-tease
Dr. Anthony Fauci talar um COVID-19-faraldurinn á fundi í Hvíta húsinu. lengst til vinstri er dr. Stephen Hahn og þá dr. Robert Redfield. Þessir þrír eru nú allir í sóttkví. Mike Pence varaforseti til hægri við Fauci á myndinni er ekki í sóttkví en hann leiðir hóp þessara sérfræðinga.

Kórónaveiran hefur búið um sig í Hvíta húsinu, valdamiðstöð Bandaríkjanna. Þeir sem starfa næstir Donald Trump Bandaríkjaforseta og Mike Pence varaforseta hafa greinst með veiruna.

Fimmtudaginn 7. maí greindist herbergisþjónn Trumps með COVID-19 eftir að orðið veikur daginn áður. Forsetinn sagðist ekki hafa haft „mjög litla persónulega tengingu“ við þjóninn en ljóst var þó að honum stóð ekki á sama. Forsetinn hefur marglýst sýklaótta sínum. Í bandarísku NBC-sjónvarpsstöðinni var hins vegar sagt frá því að hermaðurinn sem þjónaði forsetanum hefði „haft mjög náin samskipti við forsetann, hann hefði fært honum mat og aðstoðað hann við að klæðast“. Liðsmenn úr bandaríska flotanum gegna hlutverki einkaþjóna fyrir forsetafjölskylduna.

Föstudaginn 8. apríl var komið að Katie Miller, upplýsingafulltrúa Mike Pence varaforseta. Hún sýndi jákvæða svörun við veirunni. Pence frestaði flugtaki á fyrirhugaðri ferð til Iowa og sex manns úr fylgdarliði hans sem höfðu starfað við hlið Katie yfirgáfu flugvélina en enginn þeirra reyndist með veiruna.

Katie Miller er eiginkona Stephans Millers. Hann er náinn ráðgjafi Trumps en sýnir engin merki um veiruna. Miller fer með málefni innflytjenda og á oft fundi með forsetanum í skrifstofu hans. Hann skrifar ræður forsetans og situr fundi með ráðherrum og ráðgjöfum. Þá á hann tíð samskipti við Ivönku Trump og Jared Kushner, dóttur og tengdason forsetans.

„Katie er yndisleg kona, hún sýndi lengi engin merki um veiruna,“ sagði Trump föstudaginn 8. maí á fundi með repúblíkönum í Hvíta húsinu „og allt í einu reynist hún jákvæð við prófun í dag. Hún hefur ekki átt samskipti við mig. Hún starfar með varaforsetanum.“

Dr. Anthony Fauci, forstjóri Stofnunar ofnæmis og smitsjúkdóma og fulltrúi í starfshópi Hvíta hússins um kórónaveiruna, setti sjálfan sig í „milda“ sóttkví eftir að hafa, að eigin sögn, átt samskipti við starfsmann sem reyndist jákvæður gagnvart veirunni. Fauci mældist sjálfur neikvæður. Hann ætlar að halda sig heima með grímu í 14 daga.

Dr. Stephen Hahn, forstjóri Matvæla- og lyfjastofnunarinnar  (FDA), er nú í strangri sóttkví eftir að hafa átt samskipti við jákvæðan einstakling. Dr. Robert Redfield, forstjóri Miðstöðvar fyrir sóttvarnaeftirlit og varnir (CDC), ákvað einnig að fara í sóttkví.

Allt er þetta talið til marks um hve lítið er gert í Hvíta húsinu til að verja forsetann og samstarfsmenn hans gegn veirunni. Næstum enginn ber grímu í námunda við forsetann og þar fer raunar Trump sjálfur fremstur í flokki. Sýnatökur eru á hinn bóginn tíðar í Hvíta húsinu. Daglega eru tekin sýni úr forsetanum. Trump hefur þó sjálfur sagt að sýnatakan hafi takmarkað gildi: „Sýnatakan er góðra gjalda verð og virkar en eitthvað getur gerst frá því að gott sýni er tekið þar til allt í einu eitthvað gerist,“ sagði forsetinn. „Þess vegna er sýnatökuaðferðin ekki endilega besta ráðið.“

Talsmaður forsetans lét þau orð falla vegna umræðna um sóttvarnir í Hvíta húsinu að allt væri gert til að gæta heilsu forsetans. Farið væri að reglum um fjarlægð og handþvott en auk þess væri fylgst með líkamshita og sjúkdómseinkennum. Þá væri allur tækjabúnaður sótthreinsaður reglulega. Dagleg sýni væru tekin af þeim sem ættu samskipti við forsetann og varaforsetann.

Athygli vekur á hinn bóginn að hvorki eru reglulega tekin sýni af blaðamönnum né þingmönnum sem fara í Hvíta húsið og þeim er ekki skipað að ganga með grímur. Trump var til dæmis ekki með grímu frekar en aðrir föstudaginn 8. maí þegar hann hitti gamla hermenn sem börðust í síðari heimsstyrjöldinni.

Yahoo-News sagi frá því að í trúnaðarskjali komi fram að COVID-19 faraldurinn hafi leikið starfslið Hvíta hússins verr en að ofan er getið. Þannig hafi 11 öryggisverðir sem gæta forsetans og varaforsetans mælst jákvæðir gagnvart veirunni.

 

Heimild: Le Figaro

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …