Home / Fréttir / Kornútflutningurinn um Svartahaf eykst

Kornútflutningurinn um Svartahaf eykst

Kornskipið Star Helen heldur frá Odessa sunnudaginn 7. ágúst.

Fjögur kornflutningaskip yfirgáfu Úkraínu sunnudaginn 7. ágúst með tæplega 170.000 tonn af korni. Föstudaginn 5. ágúst fóru þaðan þrjú skip með um 80.000 tonn af korni. Fyrsta kornskipið, Razoni, hóf för síðan þaðan til Líbanons mánudaginn 1. ágúst.

Þess er vænst að Razoni komi til hafnar í Líbanon sunnudaginn 7. ágúst. Sagt er að ferð þess hafi tafist undan strönd Tyrklands.

Sendiráð Úkraínu í Líbanon sagði vestrænum fjölmiðlamönnum að Razoni mundi ekki halda til hafnar í Trípólí eins og ætlað var. Engar upplýsingar fengust hvar um 26.000 tonna farmurinn yrði settur á land. Þá voru ekki heldur gefnar neinar skýringar á því hvers vegna skipið tefst á för sinni.

Nú bíða níu kornskip fararleyfis úr þremur höfnum í Úkraínu. Þetta eru hafnir sem um var samið milli Úkraínumanna og Rússa undir forræði Tyrkja og Sameinuðu þjóðanna.

Innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 stöðvaði allan sjóflutning á korni frá Úkraínu, einum mesta kornútflytjanda heims. Vegna þess er talin hætta á hungursneyð í Mið-Austurlöndum og Afríku.

Laugardaginn 6. ágúst kom fyrsta skipið undir erlendum fána til hafnar í Tjsornomorsk á norðvestur Svartahafsströnd Úkraínu. Var það talið til marks um að skipafélög teldu öruggt og hagstætt að sigla að nýju til hafna í Úkraínu.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …